Innlent

Lét íhaldsflokkana borga dýran fatnað

Stígur Helgason skrifar
Páll Heimisson notaði kreditkort íhaldshóps Norðurlandaráðs meðal annars í dýrum fataverslunum og skartgripabúðum og á veitingastöðum um heim allan. Stærstur hluti fjárins sem honum er gefið að sök að hafa svikið út var þó tekinn út í bönkum og hraðbönkum, alls tólf af nítján milljónum.

Þetta má sjá í ákæru sérstaks saksóknara á hendur Páli, sem var gefin út 18. desember. Hún verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. janúar næstkomandi.

Af ákæruskjalinu má ráða að Páll hafi notað kortið í sextán löndum á tímabilinu frá janúar 2009 til mars 2011. Hann ferðaðist um þrettán Evrópulönd á tímabilinu að meðtöldu Íslandi; Danmörku, Svíþjóð, Bretland, Holland, Frakkland, Þýskaland, Austurríki, Tékkland, Króatíu, Ungverjaland, Kýpur og Rússland. Þá fór hann til Líbanon, New York í Bandaríkjunum og Peking, höfuðborgar Kína.

Ekki er annað að sjá en að hann hafi að mestu haldið sér uppi með kreditkorti íhaldshópsins á þessum ferðalögum, ef marka má ákæruna. Þá eyddi hann um 2,2 milljónum króna í viðskiptum við flugfélög á þessu 26 mánaða tímabili. Af 321 færslu eru 29 vegna viðskipta við flugfélög.

Í ákærunni segir að árið 2009 hafi Páll notað kortið í heimildarleysi fyrir rúmar 9,5 milljónir króna og tæpar 9,7 milljónir árið 2010. Árið 2011 virðist hann hafa hægt á sér, því að þá er notkunin ekki nema tæpar 223 þúsund krónur á þriggja mánaða tímabili. Það ár er til dæmis ekki um neinar óheimilar úttektir á reiðufé að ræða, samkvæmt ákærunni.

Páll Heimisson er þrítugur, fæddur árið 1982. Hann hafði verið virkur í ungliðastarfi Sjálfstæðisflokksins og var alþjóðafulltrúi flokksins þegar hann tók við sem ritari íhaldshópsins. Hann er nú skráður með lögheimili í Rúmeníu.

Páll er ákærður fyrir umboðssvik, en við slíku broti liggur allt að tveggja ára fangelsi nema ef sakir eru metnar sérstaklega miklar. Þá er refsiramminn sex ár.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×