Hetjur kastljóssins
Yvette Cloete, barnalækni frá Newport í Bretlandi, var heldur betur brugðið þegar hún kom heim úr vinnunni dag einn í ágúst árið 2000. Á útidyrahurð hennar hafði verið spreyjað stórum stöfum orðið „paedo“ eða barnaníðingur. Nokkrum vikum fyrr hafði dagblaðið News of the World hafið „krossferð“ gegn barnaníðingum og meðal annars birt opinberlega nöfn og heimilisföng 49 dæmdra brotamanna. Almenningi var heitt í hamsi, svo heitt að einhverjir nágrannar Yvette rugluðust á enska orðinu „paedophile“, sem þýðir barnaníðingur, og orðinu „paediatrician“, sem þýðir barnalæknir.
Pottur brotinn
Flestir voru vafalaust slegnir óhug sem fylgdust með umfjöllun Kastljóss síðustu viku um barnaníðinginn Karl Vigni Þorsteinsson og hálfrar aldar brotaferil hans. Glæpirnir gerast ekki mikið hrottalegri, meira mannskemmandi, en slík misnotkun á börnum og unglingum.
Mál Karls Vignis minnir um margt á mál þjóðþekkts skemmtikrafts í Bretlandi sem kom upp í október á síðasta ári og hefur verið í deiglunni þar í landi síðan. Jimmy Savile lést árið 2011, 84 ára að aldri. Hann var þekktur fyrir störf í útvarpi og sjónvarpi þar sem hann starfaði meðal annars við dagskrárgerð fyrir börn og unglinga. Tæpu ári eftir að hann lést bárust fréttir af meintum kynferðisafbrotum hans gegn börnum. Í kjölfarið var sem flóðgátt brysti. Lögreglu bárust hundruð tilkynninga um meinta misnotkun Saviles á börnum sem virtist, eins og í tilfelli Karls Vignis, hafa komist upp með athæfið í meira en hálfa öld.
Síðastliðinn föstudag var gefin út skýrsla um málið sem unnin var af bresku lögreglunni og breskum barnaverndarsamtökum. Rannsókn á kynferðisbrotum Jimmys Savile hefur leitt í ljós að víða er pottur brotinn þegar kemur að því að taka á kynferðisbrotum gegn börnum í Bretlandi. Að sama skapi hefur umfjöllun Kastljóss svipt hulunni af sambærilegri brotalöm hér á landi.
Varlega í sakirnar
Ærandi þögn virðist vera gegnumgangandi þema þegar kemur að brotum bæði Saviles og Karls Vignis. Það voru margir sem vissu en flestir þögðu. Samkvæmt umfjöllun Kastljóss var Karl Vignir rekinn úr starfi að minnsta kosti fjórum sinnum þegar grunur lék á að hann misnotaði ungmenni á vinnustaðnum. Enginn yfirmanna hans virðist hins vegar hafa haft samband við lögreglu. Þau fórnarlamba hans sem hugðust leita réttar síns komu síðan að lokuðum dyrum í réttarkerfinu því brotin voru í flestum tilfellum fyrnd.
Í kjölfar umfjöllunar Kastljóss um Karl Vigni Þorsteinsson hefur ríkisstjórnin sett saman samráðshóp sem vinna á að bættum viðbrögðum og eftirfylgni vegna kynferðisofbeldis gegn börnum. Því ber að fagna. Formaður hópsins, Ágúst Ólafur Ágústsson, barðist fyrir því er hann sat á þingi fyrir nokkrum árum að kynferðisbrot gegn börnum yrðu gerð ófyrnanleg. Var samþykkt árið 2007 að slíkt skyldi ná til hinna alvarlegri brota. Lögin eru auðvitað ekki afturvirk en í framtíðinni ætti ekki að vera hægt að vísa fórnarlömbum barnaníðinga frá með þeim orðum að of langt sé liðið síðan brotið var á þeim.
Mikilvægt er þó við þá vinnu sem er fram undan að farið sé varlega í sakirnar og málið unnið af yfirvegun. Í fjölmiðlum síðustu daga hefur nokkuð borið á umræðu um opinbera gagnagrunna sem til eru í Bandaríkjunum og hafa að geyma nöfn og heimilisföng barnaníðinga og vangaveltum um hvort slíkt kerfi henti á Íslandi.
Áður en breska dagblaðið News of the World birti opinberlega lista yfir dæmda barnaníðinga sem varð til þess að barnalæknirinn Yvette Cloete var sökuð um það á útidyrahurðinni sinni að vera „paedo“ grátbáðu forsvarsmenn bresku lögreglunnar blaðið um að gera það ekki. Í Bretlandi er dæmdum kynferðisglæpamönnum skylt að skrá sig hjá lögreglu í þar til gerðan gagnagrunn. Gagnagrunnurinn er hins vegar ekki opinber eins og í Bandaríkjunum. Breska lögreglan var þeirrar skoðunar að uppátækið stefndi börnum í hættu því með því að gera upplýsingar um barnaníðinga opinberar væru meiri líkur á að þeir reyndu að fara huldu höfði í samfélaginu, skiptu um nafn og heimilisfang svo engin leið yrði að fylgjast með þeim.
Opinber gagnagrunnur um barnaníðinga getur auk þess ýtt undir múgæsing sem erfitt er að sjá að sé fórnarlömbum slíkra ofbeldismanna til gagns. Í síðustu viku sagði Hrönn Sveinsdóttir, kvikmyndastjóri Bíó Paradísar, frá því hvernig hún hefði á unglingsárum sínum gengið í skrokk á Karli Vigni ásamt vini eftir að þau hittu eitt af fórnarlömbum hans á djamminu. Heift unglinganna er skiljanleg. Hins vegar má efast um að nokkur hafi verið bættari eftir barsmíðarnar.
Þagnarmúrinn hruninn
Hægt er að grípa til ýmissa aðgerða til að reyna að vernda börn gegn níðingum eins og Jimmy Savile og Karli Vigni – hve árangursríkar þær eru er erfitt að segja til um fyrir fram. Engin þeirra mun þó komast í hálfkvisti við gagnsemi þess mikilsverða framtaks sem fórnarlömb Karls Vignis sýndu er þau stigu fram í kastljósið og sögðu sögu sína. Frásögnum þeirra fylgir sú krafa að á börn sé hlustað, að þau séu tekin trúanleg; þeim fylgir hvatning til annarra sem orðið hafa fyrir slíku ofbeldi að greina frá því og leggja fram kæru gegn gerandanum sé þess kostur. Í Bretlandi hefur tilkynningum um kynferðismisnotkun á börnum snarfjölgað eftir að upp komst um Jimmy Savile. Ekki er ólíklegt að þróunin verði með sama móti hér á landi í kjölfar umræðunnar um Karl Vigni.
Þagnarmúrinn er hruninn. Nú er það okkar, samfélagsins alls, að tryggja að hann rísi ekki á nýjan leik.
Skoðun
Hér er kona, um konu…
Vilborg Gunnarsdóttir skrifar
Vegna greinar Snorra Mássonar
Guðmundur Andri Thorsson skrifar
Ertu á krossgötum?
Þuríður Santos Stefánsdóttir skrifar
Vísvita villandi fréttaflutningur Morgunblaðsins?
Sigurjón Þórðarson skrifar
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg?
Gunnar Ármannsson skrifar
Máttur kaffibollans
Ásta Kristín Sigurjónsdóttir skrifar
Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin
Einar Jóhannes Guðnason skrifar
Eru tengsl milli Úkraínustríðsins og breyttrar stöðu Grænlands?
Hilmar Þór Hilmarsson skrifar
Árið 1975 er að banka
Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar?
Elfa Ýr Gylfadóttir skrifar
Val Vigdísar
Skúli Ólafsson skrifar
Friður á jörðu
Þröstur Friðfinnsson skrifar
Af hverju eru kennarar að fara í verkfall?
Anton Már Gylfason skrifar
Opið bréf til Íslandspósts ohf.
Gróa Jóhannsdóttir skrifar
Gaza getur ekki beðið lengur
Hjálmtýr Heiðdal,Magnús Magnússon skrifar
Ísland yrði betra með aðild að Evrópusambandinu
Jón Frímann Jónsson skrifar
SVEIT – Kastið inn handklæðinu
Aðalsteinn Árni Baldursson skrifar
Skjáfíkn - vísindi eða trú?
Ásdís Bergþórsdóttir skrifar
Evrópusambandið eða nasismi
Snorri Másson skrifar
Friður eða svikalogn? Hilmari Þór Hilmarssyni, prófessor, svarað
Andri Þorvarðarson skrifar
Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi
Sæunn Kjartansdóttir skrifar
Listin að styðja en ekki stýra
Árni Sigurðsson skrifar
Með vægi í samræmi við það
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
Hugvíkkandi efni: Forvitni umfram dómhörku
Bergsveinn Ólafsson skrifar
Velferðartækni er það lykillinn að sjálfbærara heilbrigðiskerfi?
Helga Dagný Sigurjónsdóttir skrifar
Hindrum fleiri græn gímöld með einföldun regluverks
Ásta Logadóttir,Trausti Björgvinsson skrifar
Vegna FB færslu Kristins Hrafnssonar: Misskilningur um endurgreiðslukerfi kvikmynda
Ólafur William Hand skrifar
Hvernig tölum við um mat í kringum börnin okkar?
Berglind Lilja Guðlaugsdóttir skrifar
Fangelsismál - Sparnaður og endurhæfing
Ólafur Ágúst Hraundal skrifar