Ragnheiður og fjölskylda hennar festu kaup á Grundarstíg 10 árið 2007 í þeim tilgangi að gera það upp og opna það almenningi.
„Mín tilfinning varð strax sú að fólk þyrfti að fá að nota þetta hús, ég myndi ekki búa í því sjálf," segir Ragnheiður. „Hús frá þessum tíma eru hluti af sögu sem við höfum ekki góðan aðgang að. Við heimsækjum Árbæjarsafn og förum á veitingastaði í gömlum timburhúsum en oftar en ekki eru hús frá þessum tíma í einkaeigu. Hér bjó skáld og stjórnmálamaður sem kemur mikið við sögu þjóðarinnar og húsið því partur af menningararfi okkar. Það fylgir því sérstök tilfinning að ganga inn í svona hús," útskýrir Ragnheiður og segir fjölskrúðugt líf hafa verið í húsinu alla tíð.
„Hannes bjó hér í sjö ár með börnum sínum, móður og tengdamóður en konan hans var fallin frá. Húsið var síðan í eigu sömu fjölskyldu allt frá árinu 1929 og þar til við kaupum það árið 2007. Hér var einnig ýmiss konar atvinnustarfsemi, svo sem sófagerð, efnagerð, snyrtistofa, lögfræðistofa og leirmunaverkstæði. Það góða við húsið er að mikil virðing hefur verið borin fyrir því gegnum árin, ekkert skemmt og engu hent. Þá byggðum við viðbyggingu í garðinum sem verður tónlistarsalur."
En hvert verður hlutverk hússins?
„Ég lít á húsið sem félagsheimili og vonast til þess að það verði staður þar sem fólk kemur saman til uppbyggilegra hluta. Hægt verður að leigja húsið undir margs konar starfsemi en ég sé fyrir mér að með því að líta til baka til þess tíma þegar Reykjavík er að verða að borg getum við hlúð að rótum okkar og rifjað upp hver við erum. Íslendingar eru kraftmiklir og nýjungagjarnir og fá samfélög hafa breyst jafn hratt á jafn stuttum tíma. En vegna þess höfum við kannski týnt okkur. Í þessu húsi vonumst við til að geta ræktað tengsl okkar við ræturnar og hlúð að því besta í menningu okkar."

Nánar má forvitnast um Hannesarholt á Facebook og á hannesarholt.is.