Innlent

Er ekki karl í krapinu í brimskafli

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Katrín Jakobsdóttir segir að þrátt fyrir slælega útkomu flokksins í skoðanakönnunum sé hugur í flokksfólki. "Við höfum að mörgu leyti verið í nauðvörn. Ég held að við höfum hins vegar mjög margt fram að færa.“fréttablaðið/stefán
Katrín Jakobsdóttir segir að þrátt fyrir slælega útkomu flokksins í skoðanakönnunum sé hugur í flokksfólki. "Við höfum að mörgu leyti verið í nauðvörn. Ég held að við höfum hins vegar mjög margt fram að færa.“fréttablaðið/stefán
Þau tíðindi urðu í sögu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs um helgina að skipt var um formann. Steingrímur J. Sigfússon hafði gegnt formennsku frá stofnun flokksins og raunar fyrr, í óeiginlegri merkingu. Katrín Jakobsdóttir, sem verið hefur varaformaður flokksins í tíu ár, tók við keflinu. Hvernig verður hún frábrugðin Steingrími sem formaður?

„Við erum auðvitað búin að starfa saman í tíu ár í forystunni og lengur innan hreyfingarinnar. Áherslur okkar hafa að mörgu leyti farið saman. Það er svolítið erfitt að byrja svo að skilgreina sjálfa sig sem eitthvað ægilegt spútnik. Sagan verður auðvitað bara að dæma þetta, en við erum náttúrulega ólíkt fólk, með ólíkan bakgrunn.

Ég kem úr blokk í Reykjavík og Steingrímur kemur af stærsta býlinu í Þistilfirði. Ólíkur bakgrunnur hefur sitt að segja og við höfum ólíka nálgun á stjórnmálin, þó við deilum grunngildum þessarar hreyfingar."

Það er þá ekki von á stefnubreytingu?

„Nei, það mundi ég ekki segja, en við Steingrímur erum náttúrulega með ólíka nálgun á hlutina."

Ýmis orð hafa verið látið flakka síðan þú tilkynntir um formannsframboð og þú meðal annars verið kölluð gluggaskraut. Hvaða augum lítur þú slík ummæli?

„Það er alls konar umræða alltaf í gangi og það virðist mega kalla fólk alls kyns nöfnum. Það er líka ýmislegt sagt um Bjarna Benediktsson og tiltekinn aftursætisbílstjóra í hans flokki. Kannski er ekki alveg hægt að tala um hlutina sem eingöngu kynbundna, en auðvitað er þetta að einhverju leyti kynbundin umræða líka. Og það finnst mér mjög gamaldags.

En, það er alveg öruggt að við höfum haft formann sem er karl í krapinu og ég er örugglega ekki þannig formaður. Þessu var fyrst og fremst beint til minna félaga og þeir verða að lifa með því að hafa formann sem er ekki karl í krapinu í brimskaflinum."

Stefnt að félagshyggjustjórn

Landsfundur samþykkti ályktun um að ljúka bæri aðildarviðræðum við Evrópusambandið innan ákveðinna tímamarka og bera samning undir þjóðina. Liðkar þetta fyrir stjórnarmyndunarviðræðum við Samfylkinguna?

„Við þurfum nú fyrst að fá eitthvert fylgi. Mér finnst bara allt of snemmt að segja til um það."

Landsfundur felldi tillögu um að útiloka stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn, en samþykkti að stefna skyldi að félagshyggjustjórn. Katrín segir að fundurinn hafi viljað hafa tillöguna með jákvæðum formerkjum.

„Sjálfstæðisflokkurinn talar mest um afnám þeirra breytinga sem við höfum gert á skattkerfinu og að taka aftur upp flatt skattkerfi. Þetta hefur verið eitt af helstu málum okkar, að ná fram þrepaskiptu skattkerfi á einstaklinga, til þess að auka jöfnuð í samfélaginu. Við sjáum að það hefur gerst og ef við berum saman tölur frá 2007 og 2013, þá er augljóst að jöfnuður hefur aukist á Íslandi. Skattkerfið sem stjórnvöld notuðu jók ójöfnuð á árinu 2007. Þetta er sú leið sem Sjálfstæðismenn boða nú að farin skuli á ný. Þetta, og sú ofuráhersla sem þeir hafa lagt á virkjanaframkvæmdir og stóriðju, tel ég að geri þessum flokkum erfitt um samstarf."

Ekki alls konar fyrir alla

En hverjar verða helstu kosningaráherslur Vinstri grænna?

„Ég hef lagt áherslu á það að við getum ekki gengið fram með alls konar fyrir alla, eins og mér hefur þótt formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks gera núna. Hins vegar er staðan núna auðvitað betri en hún var árið 2009. Það er aðeins meira svigrúm til að gera eitthvað.

Stóra málið finnst mér vera að horfa á kjör almennings. Það er alveg ljóst að þó að það hafi gengið að draga úr atvinnuleysi, og við höfum tekist á við ríkisfjármálin, þá er staða mjög margra enn þá verri en hún var fyrir hrun. Fólk hefur úr minna að moða og á erfiðara með að láta enda ná saman. Það á við bæði um lágtekjuhópa og millitekjuhópa og mér finnst það vera stóra verkefnið; að beita sér fyrir því að bæta kjör fólks.

Það fer saman við að auka vöxt í samfélaginu, á sjálfbæran hátt. Það er kannski stóra málið, held ég, því ég hugsa að allir flokkar tali fyrir bættum kjörum almennings fyrir þessar kosningar, stóra málið er að það sé gert á sjálfbærum grunni og ekki verði farið í einhverjar stórar patentlausnir til að skapa gervihagvöxt sem síðan skilar ekki langtímaárangri.

Mér finnst þetta vera verkefnið. Það má fara ýmsar leiðir í því, eins og við höfum verið að ræða hér á fundinum, hvað varðar húsnæðisskuldir. Við viljum kanna leiðir til að skoða sérstaklega lán tekin á árunum fyrir hrun og gera einhverja áætlun til fimm til átta ára, eitthvað slíkt, til að skoða höfuðstól þessara lána.

Það þarf líka að skoða barnabótakerfið. Tölurnar sýna að þar hafa Íslendingar dálítið setið eftir. Síðan þarf auðvitað að skoða það hvernig við getum haldið áfram að byggja upp atvinnulífið, sem auðvitað skapar velsældina til að hlutirnir geti haldið áfram."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×