Tónlist

Lagið fjallar ekki um lýsi

Sara McMahon skrifar
María Ólafsdóttir syngur lagið Lýsi í myrkri ásamt Kristmundi Axel, en myndband við lagið hefur fengið yfir tólfþúsund áhorf á Youtube á aðeins þremur dögum. Lagið er úr smiðju upptökuteymisins Stop Wait Go sem er skipað Sæþóri Kristjánssyni og bræðrunum Pálma Ragnari og Ásgeiri Orra Ásgeirssonum.

"Ég hef aðeins unnið með strákunum í Stop Wait Go og þeir spurðu mig hvort ég vildi ekki syngja lagið með Kristmundi," segir María um verkefnið. Lýsi í myrkri er þegar komið í spilun á útvarpsstöðinni Fm 957 og viðurkennir María að það sé skrítið að heyra sjálfa sig syngja í útvarpinu. "Ég vissi ekki alveg við hverju ég mátti búast en viðtökurnar hafa verið góðar."

Hún segir söng og leiklist sín helstu áhugamál og hyggur á framhaldsnám í tón- og leiklist. "Ég hef aldrei lært söng, en hef sungið frá því ég man eftir mér. Ég hef líka tekið þátt í leiksýningum frá tíu ára aldri, þar á meðal Söngvaseið sem var sett upp í Borgarleikhúsinu og í Michael Jackson sýningunni á Broadway," segir María sem hefur að auki komið fram í þremur nemendaleiksýningum Verslunarskóla Íslands, þaðan sem hún lýkur stúdentsprófi í vor.

Þegar hún er spurð út í titil lagsins segir hún hann hafa verið uppsprettu góðlátlegs gríns meðal vina hennar. "Mér datt ekki í hug að titillinn gæti misskilist fyrr en vinir mínir byrjuðu að djóka með hann. En lagið fjallar ekki um lýsi," segir hún og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×