Innlent

Strætóbílstjórar reknir vegna kynferðisbrota

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Hagvagnar, verktakar hjá Strætó, réðu fyrrverandi bílstjóra Smartbíla til starfa eftir að hann hafði verið látinn hætta þar vegna nauðgunarkæru.
Fréttablaðið/Valli
Hagvagnar, verktakar hjá Strætó, réðu fyrrverandi bílstjóra Smartbíla til starfa eftir að hann hafði verið látinn hætta þar vegna nauðgunarkæru. Fréttablaðið/Valli
Maðurinn sem er til rannsóknar hjá lögreglu vegna kynferðisbrots gegn þroskaheftri konu í Kópavogi var ráðinn til Strætó stuttu eftir að honum var sagt upp störfum hjá Smartbílum. Eftir að í ljós kom að hann væri grunaður um kynferðisbrot var hann þó líka látinn hætta hjá Hagvögnum, sem eru verktakar fyrir Strætó.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem bílstjóri er látinn fara vegna kynferðisbrota. Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, segist muna eftir eina öðru dæmi, þegar manni sem hafði skilað inn hreinu sakavottorði var sagt upp störfum eftir að ættingi fórnarlambs bar kennsl á hann undir stýri.

„Við teljum ekki forsvaranlegt að meintir brotamenn starfi í þágu okkar meðan á rannsókn máls stendur,“ segir hann. Viðkomandi hafði tekið út sinn dóm mörgum árum áður og því sást það ekki á sakavottorðinu. Reynir segir þau oft veita falskt öryggi.

Rannsókn lögreglu á hinum manninum stendur enn yfir en miðar vel. Kópavogsbær hefur boðað forsvarsmenn Smartbíla á sinn fund til að ræða viðbrögð þeirra við tilkynningu þroskaheftrar konu um kynferðisbrot af hans hálfu, en ekki var brugðist við því fyrr en hann var kærður til lögreglu fyrir að nauðga annarri þroskaskertri konu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×