Lífið

41 hljómsveit mætir á Eistnaflug

Freyr Bjarnason skrifar
Rokkararnir í Skálmöld taka þátt í Eistnaflugi í júlí.fréttablaðið/stefán
Rokkararnir í Skálmöld taka þátt í Eistnaflugi í júlí.fréttablaðið/stefán

„Þessi hátíð verður rosalega falleg,“ segir Stefán Magnússon, skipuleggjandi þungarokkshátíðarinnar Eistnaflugs. Hátíðin verður haldin í níunda sinn í sumar, dagana 11.-13. júlí, í Egilsbúð, Neskaupstað. Alls mun 41 hljómsveit stíga á stokk og þar af sjö erlendar. Meðal íslenskra sveita koma fram Sólstafir, Skálmöld, Brain Police, Dimma, Legend, Muck, Kontinuum, The Vintage Caravan, Angist og Morðingjarnir.

Fremst í flokki erlendra hljómsveita er Red Fang frá Bandaríkjunum sem mun enda Evróputúr sinn á Neskaupstað. „Við fengum Napalm Death 2010 sem er vel þekkt en Red Fang er alveg frábær líka. Þetta er algjört partíband,“ segir Stefán. Sigurvegarar Wacken Metal Battle 2012, Hamferð frá Færeyjum, munu einnig mæta, ásamt Earth Divide. Á Eistnaflug eru væntanlegir blaðamenn frá bresku blöðunum Metal Hammer, Terrorizer, Rock n Rolla og Iron Fist og þýsku útgáfunni af Metal Hammer.

Í ár verður breytt til og bætt við tónleikum fyrir alla aldurshópa 10. júlí kl. 19. Skálmöld, Sólstafir og Dimma koma fram og kostar 2.000 kr. Miðasala fer fram í Egilsbúð. Miðasalan á hátíðina sjálfa er hafin á Midi.is. „Það er alltaf uppselt og alltaf ógeðslega gaman. Það er ástæðan fyrir því að maður nennir þessu,“ segir Stefán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.