Viðskipti innlent

Tóku lán hjá Sjóvá til að borga Ingunni

Stígur Helgason skrifar
Karl og Steingrímur Wernersson
Karl og Steingrímur Wernersson
Karl og Steingrímur Wernerssynir, í félagi við Guðmund Ólason, forstjóra Milestone, létu tryggingafélagið Sjóvá borga Ingunni Wernersdóttur, systur þeirra, 600 milljónir árið 2006 af því að Milestone, móðurfélag Sjóvár, réð ekki við að inna greiðslunar af hendi. Í staðinn eignaðist Sjóvá kröfu á Milestone.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ákæru sérstaks á hendur þremenningunum fyrir umboðssvik og brot á lögum um bókhald og ársreikninga. Þrír endurskoðendur hjá KPMG eru jafnframt ákærðir í málinu.

Ákæran var birt sexmenningunum á mánudaginn og greint var frá henni í Fréttablaðinu á þriðjudag. Þar kom fram að hún snerist um það þegar Karl, Steingrímur og Guðmundur ákváðu að kaupa Ingunni út úr Milestone fyrir rúma 4,8 milljarða árin 2006 og 2007, með peningum frá Milestone sem voru lagðir inn á hana mánaðarlega árin tvö.

Ákæran er 29 blaðsíður og var gerð opinber í gær. Í henni kemur meðal annars fram að þegar leið á árið 2006 hafi Milestone átt „í nokkrum erfiðleikum með að fjármagna greiðslur til Ingunnar samkvæmt greiðsluáætluninni“.

Þá hafi verið brugðið á það ráð að semja við Ingunni um að fresta fjórum 150 milljóna greiðslum, frá september til desember 2006, en að hún fengi í staðinn 600 milljóna kröfu á Sjóvá.

„Látið var líta svo út að Sjóvá hefði tekið víkjandi lán hjá Ingunni, sem Sjóvá skyldi endurgreiða Ingunni með vöxtum. Ingunn greiddi Sjóvá hins vegar aldrei lánsfjárhæðina en þess í stað var færð í bókhaldi Sjóvár krafa á hendur milstone án þess að skriflegir samningar lægju fyrir um þá kröfu.“

Í ákærunni er jafnframt sérstaklega fjallað um það að allar arðgreiðslur út úr Milestone vegna áranna 2005 og 2006, og 98,4 prósent af argreiðslum ársins 2007, hafi runnið til Karls og Steingríms þótt þeir hafi ekki lagt neitt fé til kaupa á hlutum Ingunnar. Alls námu arðgreiðslurnar milljarði króna.

Ákæran verður þingfest í september.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×