Skoðun

Sprengjusérfræðingur óskast

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Lífeyrismál opinberra starfsmanna hafa verið í brennidepli undanfarið. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins um stöðu lífeyrissjóða kemur fram að staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga – sem sagt skattgreiðenda – sé „sem fyrr mjög slæm“. Um áramót vantaði nærri 574 milljarða upp á að þessir lífeyrissjóðir ættu fyrir skuldbindingum.

Ef þetta væru lífeyrissjóðir almennra launþega myndu þeir þurfa að skerða réttindi. En það gerist ekki hjá sjóðum hins opinbera nema að litlu leyti. Stór hluti opinberra starfsmanna nýtur lífeyrisréttinda, sem miðast ekki við það hvað hefur safnazt í sjóðina heldur eru þau skilgreind í lögum og skattgreiðendur borga ef upp á vantar.

Lífeyrissjóður ríkisstarfsmanna (LSR) er stærsta vandamálið. Hallinn á honum er 466 milljarðar, þar af um 360 vegna B-deildarinnar sem heldur utan um réttindi eldri starfsmanna. Hallinn er til kominn vegna þess að ríkið hefur sparað sér að hækka iðgjald launagreiðanda þannig að það stæði undir skuldbindingum sjóðsins. Stjórnmálamenn hafa ekki talið svigrúm til að fjármagna sjóðinn eins og þurfti og í staðinn safnað upp þessari skuld við hann. Þeir hafa ýtt vandanum á undan sér og ekki lagt í að skera enn meira niður í þjónustu hins opinbera til að eiga fyrir því sem þurfti að leggja sjóðnum til.

Á mannamáli heitir þetta: Við skattgreiðendur höfum ekki efni á þessum ríkulegu lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Tölurnar eru ævintýralegar – hallinn samsvarar hér um bil heilum fjárlögum ríkisins. Árlega bæta stjórnmálamennirnir einni dínamíttúpu í tifandi tímasprengju með því að gera ekki neitt.

Hvernig á að gera sprengjuna óvirka? LSR boðar að um áramótin þurfi að hækka iðgjald til A-deildar sjóðsins um eitt prósentustig til að leysa bráðavanda hennar, en hallinn á henni er orðinn meiri en lög leyfa. Pétur Blöndal, þingmaður og tryggingastærðfræðingur, bendir á það í Fréttablaðinu í gær að miklu stórtækari aðgerðir þurfi til að bregðast við vandanum og koma þurfi hallanum með einhverjum hætti inn á fjárlög.

Það þýðir að skattgreiðendur munu næstu árin þurfa að borga marga milljarða á ári til að standa við skuldbindingar gagnvart eldri ríkisstarfsmönnum. Svigrúmið hjá ríkissjóði er ekkert, þannig að skera verður niður á móti. Það er ekki hægt án þess að fækka starfsfólki ríkisins.

Bent hefur verið á að eigi að skerða lífeyrisrétt opinberra starfsmanna sem borga í A-deildina verði að hækka við þá launin. Það má til sanns vegar færa, en jafnlitlir peningar eru til í ríkissjóði fyrir því. Ef laun ríkisstarfsmanna eiga að hækka, þarf því um leið að fækka þeim sem þiggja þau.

Þannig standa hagsmunasamtök opinberra starfsmanna frammi fyrir þeirri áhugaverðu þversögn í hagsmunabaráttu sinni að það verður að fækka ríkisstarfsmönnum til að tryggja lífeyrisréttindi ríkisstarfsmanna.

Það finnst mönnum vafalaust vont, en er einhver önnur leið til að aftengja tímasprengjuna? Hér með er lýst eftir sprengjusérfræðingnum sem kann þau trix.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×