Karlalið Breiðabliks, ÍBV og KR verða í eldlínunni í kvöld í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Stuðningsmenn liðanna og íslenskrar knattspyrnu geta fylgst vel með gangi mála.
Breiðablik stendur best að vígi en liðið sækir Sturm Graz heim í Austurríki. Eftir markalaust jafntefli í fyrri leiknum er möguleiki svo sannarlega fyrir hendi hjá Kópavogsliðinu. Staða KR-inga er ekki jafn góð í Belgíu eftir 3-1 tap gegn Standard Liege.
Blikar og KR-ingar á klakanum eiga þess kost að fylgjast með leikjunum í útvarpi og á netinu. Blikar senda út á síðu sinni, www.blikar.is, klukkan 16 en KR-ingar á netheimur.is eða FM 98,3 klukkan 18.30.
ÍBV tekur á móti Rauðu stjörnunni frá Belgrad á Hásteinsvelli. Serbarnir hafa 2-0 forskot úr fyrri leiknum. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 18.30.
