Viðskipti innlent

Glitnismaður ákærður fyrir innherjasvik

Stígur Helgason skrifar
Erlendur Magnússon.
Erlendur Magnússon.
Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Glitni fyrir innherjasvik.

Maðurinn, Erlendur Magnússon, var framkvæmdastjóri deildar sem sá um skuldsetta fjármögnun hjá Glitni fyrir hrun.

Í ákærunni er honum gefið að sök að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar sem hann komst yfir við störf sín í bankanum þegar hann seldi hluti félagsins Fjársjóðs ehf. í Glitni fyrir tíu milljónir króna 26. mars 2008. Fjársjóður ehf. var í eigu Erlendar og konu hans.

Erlendur var ekki á skrá yfir innherja í bankanum en sérstakur saksóknari telur að hann hafi uppfyllt skilyrði þess að teljast tímabundinn innherji þegar hann seldi bréfin, enda hafi hann á tímabilinu frá 27. febrúar 2008 til 26. mars 2008 fengið sendar í tölvupósti margvíslegar upplýsingar um slæma lausafjárstöðu bankans í erlendum gjaldeyri.

Sjálfur skrifaði Erlendur í tölvupósti til forstjórans Lárusar Welding 14. mars að ef bankinn leitaði ekki aðstoðar Seðlabankans vegna lausafjárstöðunnar yrðu „hlutabréf bankans svo gott sem verðlaus um páskana“.

Í ákærunni, sem gefin var út 2. ágúst og verður þingfest á mánudaginn kemur, segir að sex milljónir króna á bankareikningi Fjársjóðs ehf. hafi verið kyrrsettar 19. júlí síðastliðinn. Gerð er krafa um upptöku þeirra.

Tveir dómar fallið vegna innherjasvika

Tvisvar hafa menn verið sakfelldir á Íslandi fyrir innherjasvik. 

Sá fyrsti var Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, sem var dæmdur í tveggja ára fangelsi árið 2011 fyrir að selja bréf sín í Landsbankanum fyrir 192 milljónir í september 2008.

Hinn var Friðfinnur Ragnar Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri millibankamarkaða hjá Glitni, sem hlaut í vor eins árs dóm fyrir að selja bréf sín í bankanum fyrir 20 milljónir í mars, apríl og september 2008.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×