„Reykjavíkurflugvöllur er flugvöllur allra landsmanna og landið sem hann situr á er jafnt í eigu Reykjavíkurborgar og íslenska ríkisins. Það var tekin ákvörðun um það á sínum tíma að skipulagsvald yfir Keflavíkurflugvelli yrði hjá ríkinu, og þar með Alþingi, og að sama skapi tel ég eðlilegt að það sé Alþingi Íslendinga sem fjalli um skipulagsmál á Reykjavíkurflugvelli,“ segir Höskuldur.
Frumvarpssmíðin er langt komin og að sögn Höskuldar ætlar hann að kynna það fyrir þingflokkum stjórnarflokkanna á næstu dögum. Þar vonast hann til að afla meðflutningsmanna. „En ég vonast fyrst og fremst til þess að málið fái málefnalega og góða umfjöllun inni á Alþingi og verði rætt þar í rólegheitum.“

Auk Keflavíkurflugvallar bendir hann á þjóðgarðinn á Þingvöllum og sömuleiðis frumvarp sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir lagði fram í mars síðastliðnum um að skipulagsvald á alþingisreitnum við Austurvöll flyttist til þingsins. Það komst þó aldrei til umræðu.
„Ég set Reykjavíkurflugvöll undir sama hatt og Keflavíkurflugvöll, þjóðgarðinn á Þingvöllum og alþingisreitinn. Þetta eru einfaldlega staðir sem snúa að öllum landsmönnum, hvar sem þeir búa. Þess vegna er eðlilegt að það séu kjörnir fulltrúar alls landsins sem hlutist til um það hvernig skipulagsmálum er háttað þar,“ segir Höskuldur Þórhallsson.
„Eftir því sem lög ákveða“
Stjórnarskrárákvæðið sem Höskuldur vitnar til er númer 76.
Þar segir: „Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.“