Menning

Höfundar jólaskáldsagnanna sækja efnivið til fyrri tíma

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Guðmundur Andri Thorsson
Guðmundur Andri Thorsson
Þótt bókaútgáfa dreifist nú meira en áður og út komi ein til tvær bækur á viku allan ársins hring eru bestu bitarnir enn þá geymdir til jólanna að gömlum og góðum sið. Íslenskar skáldsögur eftir virta höfunda koma til dæmis nánast allar út á síðustu tveimur mánuðunum fyrir jól. Um miðjan október fara bókaverslanir að fyllast af brakandi nýjum íslenskum skáldsögum og lestrarfíklar geta gleymt sér við lestur langt fram í janúar – eða jafnvel lengur.



Margir af okkar bestu höfundum eiga bók á jólavertíðinni í ár. Þær eru af ýmsum toga og viðfangsefnin misjöfn, eins og gefur að skilja en við fyrstu sýn virðast skáldin þó vera á nokkuð svipuðum nótum hvað viðfangsefni varðar. Það er fortíðin sem heillar og nánast allar bækurnar einbeita sér að fyrri tímum. Samtíminn er greinilega ekki heillandi umfjöllunarefni í augum höfundanna okkar. Kíkjum á nokkur dæmi.



Horft um öxl



Það hefur verið áberandi í íslenskri skáldsagnagerð undanfarin ár hversu mjög höfundar forðast að takast á við samtímann og á því verður engin breyting í haust.

Jón Kalman Stefánsson sendir frá sér ættarsögu sem hefst í upphafi síðustu aldar og teygir sig fram á okkar daga. Sögusviðin eru einkum Norðfjörður í upphafi síðustu aldar og Keflavík seinni ára.

Þórunn Erlu Valdimarsdóttir er á slóðum ættar sinnar í skáldsögunni Stúlka með maga sem mun vera saga móður skáldkonunnar.

Guðmundur Andri Thorsson skrifar sögulega skáldsögu þar sem Benedikt Gröndal er í aðalhlutverki og Sjón rýfur fimm ára þögn og sendir frá sér skáldsögu um samkynhneigðan mann í Reykjavík á fyrrihluta síðustu aldar.

Arnaldur Indriðason er með verðlaunabókina Skuggasund og þótt ytri tími sögunnar sé samtíminn beinist rannsókn glæpsins að morðmáli frá 1944.

Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson flétta einnig gömul sakamál inn í sínar glæpasögur þótt tími þeirra sé samtíminn. Þóra lögmaður er ekki mætt til leiks í bók Yrsu en Ari Þór Arason á enn sviðið í sögu Ragnars.

Stefán Máni sendir frá sér nýja bók með lögreglutöffaranum Herði Grímssyni í forgrunni og má búast við að þar komi fortíðin einnig sterklega við sögu.

Bjartur kynnir til leiks glænýjan spennusagnahöfund, Jón Óttar Ólafsson, sem hefur doktorspróf í afbrotafræðum frá Cambridge og hefur meðal annars starfað sem lögreglumaður hér heima. Nútíminn ætti að eiga sér talsmann þar.Árni Þórarinsson fetar inn á nýja braut og sendir að þessu sinni ekki frá sér spennusögu heldur ástarsögu þar sem Einar blaðamaður er víðsfjarri góðu gamni.



Skáldævisagan í sókn



Einn allra dáðasti höfundur þjóðarinnar, Vigdís Grímsdóttir, sendir frá sér skáldævisöguna Dísusögu sem hún byggir á eigin ævi, með skáldlegu ívafi auðvitað.

Eiríkur Guðmundsson sendir einnig frá sér æskuminningar frá Bolungarvík í skáldlegum búningi og Edda Andrésdóttir skrifar Eyjasögu út frá eigin reynslu.

Bjarni Haukur Þórsson byggir sömuleiðis á eigin upplifunum í skáldævisögunni Pabbinn sem hann byggir á hinu geysivinsæla leikriti sínu með sama nafni.



Lítið um nýja höfunda



Það vekur athygli að útgefendur virðast ekki veðja á nýja og óþekkta höfunda að þessu sinni, ef frá er talin spennusagnahöfundur Bjarts sem áður var nefndur. Forlagið sendir þó frá sér eina bók eftir nýjan höfund Halldór Armand Ásgeirsson, Vince Vaughn í skýjunum, sem inniheldur tvær nóvellur sem báðar fjalla um fimmtán mínútna frægð og eru kyrfilega njörvaðar í samtímann. Nokkrir nýir barnabókahöfundar eru þó á útgáfulistum forlaganna en við geymum það til betri tíma að rekja þá sögu.

Þessi upptalning er engan veginn tæmandi, enn luma útgefendur á nokkrum leyndarmálum, en það er þó alveg ljóst að unnendur íslenskra skáldsagna hafa til margs að hlakka til næstu vikurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×