Innlent

Gjöld á reykvískt barnafólk hækka

Garðar Örn Úlfarsson og Valur Grettisson skrifar
Gjaldskrárhækkanir á barnafólk í Reykjavíkurborg eru verulegar samkvæmt fjárhagsáætluninni.
Gjaldskrárhækkanir á barnafólk í Reykjavíkurborg eru verulegar samkvæmt fjárhagsáætluninni. Fréttablaðið/Anton
Allar gjaldskrár Reykjavíkurborgar hækka samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar, en af sviðum borgarinnar hækka gjöld mest hjá skóla- og frístundasviði.

Flestar gjaldskrár eru sagðar munu hækka sem nemur verðbólgu, sem áætluð er 3,4 prósent. Foreldrar leikskólabarna munu hins vegar þurfa að taka á sig meiri hækkun. Þannig hækkar mánaðargjald fyrir barn einstæðra foreldra eða barn öryrkja í átta tíma vistun um 1.675 krónur, eða sem nemur 10,9 prósentum. Hækkunin er 11,5 prósent fyrir barn í fimm tíma dagvistun.

Leikskólagjald fyrir barn hjóna og sambúðarfólks í átta tíma vistun hækkar úr 25.800 krónum í 28.181 krónu. Hækkunin er 2.301 króna, eða 8,9 prósent.

Jón Gnarr
Þá hækkar gjald vegna barns hjá dagforeldri um 9 prósent. Máltíðir í grunnskólum hækka úr 6.600 krónum í 7.600 á mánuði. Sú hækkun, sem nemur 15,2 prósentum, er sögð vera til að bæta gæði matarins.

„Það varð ákveðin vísitöluhækkun,“ segir S. Björn Blöndal, aðstoðarmaður Jóns Gnarr borgarstjóra.

Í máli Jóns Gnarr á fundi borgarstjórnar í gær kom fram að þrátt fyrir hækkanir yrðu gjaldskrár fyrir skóla- og frístundaþjónustu áfram með þeim allra lægstu á landinu.

Júlíus Vífill Ingvarsson
Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, segir gjaldskrár- og skattahækkanir á núverandi kjörtímabili þýða að meðalfjölskyldan greiði 440 þúsund krónum meira á ári. „Auðvitað finnur fólk fyrir þessu. Þetta kemur harðast niður á ungu fjölskyldufólki,“ segir Júlíus Vífill.

Í fjárhagsáætluninni kemur fram að í útkomuspá fyrir rekstur borgarinnar og fyrirtækja í eigu hennar er áætlað að staðan verði neikvæð um tvo og hálfan milljarð króna í lok þessa árs. Gert er ráð fyrir að þessu verði snúið rækilega við og að rekstur borgarinnar verði jákvæður um rúma átta milljarða í lok næsta árs. Þar á Orkuveitan að spila lykilhlutverk.

Sorphirðugjaldið hækkar um nær 10%

  • Sorphirðugjald fyrir svarta tunnu við íbúðarhús í tíu daga hækkar úr 18.600 upp í 20.400 krónur. Hækkunin er 9,7 prósent.
  • Gjöld hækka í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Stakt gjald fyrir börn 5-12 ára hækkar um 50 krónur, eða úr 550 krónum upp í 600. Það gera 9,1 prósents hækkun.
  • Bókasafnskortið hækkar hjá Borgarbókasafninu um 200 krónur. Fer úr 1.700 krónum upp í 1.900. Hækkunin nemur 11,8 prósentum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×