Tónlist

Það vekur alltaf athygli að vera stelpan í bandinu

Marín Manda skrifar
Nanna Bryndís Hilmarsdóttir
Nanna Bryndís Hilmarsdóttir
Nanna Bryndís Hilmarsdóttir er konan í hljómsveitinni Of Monsters and Men. Aðeins 24 ára er hún búin að ferðast og spila víða erlendis með strákunum í bandinu og segist vera að upplifa drauminn. Lífið ræddi við Nönnu Bryndísi og spurði hana út í upphafið að ævintýrinu, tónlistarlífið og hvernig það er að vera komin heim eftir 18 mánaða tónleikaferðalag um heiminn. 

Nanna Bryndís er með báða fætur á jörðinni þrátt fyrir að upplifa smjörþefinn af heimsfrægð ásamt hljómsveitarmeðlimum sínum í Of Monsters and Men. Eftir að hafa spilað saman í einungis tvær vikur vann hljómsveitin Músíktilraunir. Þau höfðu enga hugmynd um hvað væri handan við hornið enda kom frægðarljóminn skyndilega.

Hvað dreymdi þig um að verða þegar þú varst yngri?

„Mig langaði að verða tónlistarkona og var alltaf með litlar textabækur þar sem ég skrifaði niður texta á ensku en ég var kannski bara níu ára. Svo þegar ég komst á unglingsárin þá kom áhuginn fyrir alvöru og ég fór að læra á gítar í tónlistarskóla í nokkur ár. Það er mikið af íþróttafólki í fjölskyldunni minni sem hefur áhuga á fótbolta þannig að tónlistaráhuginn hjá mér kom eins og þruma úr heiðskíru lofti.“

Nanna Bryndís er hæfileikarík stelpa.
Hætti í myndlist fyrir tónlistina

Nanna Bryndís ólst upp og bjó í Garðinum þar til hún varð 18 ára. Þaðan flutti hún til Keflavíkur, bjó á vellinum í stúdentagörðunum og fór í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þegar hún fluttist búferlum til Reykjavíkur fór hún að vinna í leikskóla og vídeóleigu til að geta leigt íbúð með vinkonu sinni. Áhuginn á að skapa togaði í hana og þegar hún var komin í myndlistarskólann gripu örlögin í taumana og leiddu hana á vit tónlistarinnar. Nú tilheyrir hún hljómsveitinni Of Monsters and Men ásamt Brynjari Leifssyni, Ragnari Þórhallssyni, Arnari Rósenkranz Hilmarssyni og Kristjáni Páli Kristjánssyni. Þeirra fyrsta plata, My Head Is an Animal, náði toppsæti á vinsældalista í Ástralíu, Íslandi, Írlandi og US Rock and Alternative Charts og lagið Little Talks var á topp-tíu listanum hjá flestum alþjóðlegum útvarpsstöðum. 

Of Monsters And Men spila út í náttúrunni.
Hvernig varð hljómsveitin Of Monsters and Men til?

„Ég kynntist Brynjari í framhaldsskóla en við vorum vön að hittast í geymslu heima hjá afa hans, sitja á teppi og spila,“ segir hún og hlær. „Ég var oft að spila ein og var orðin leið á því svo ég hvatti hann oft til að spila með mér. Raggi var fenginn til að spila með okkur á Airwaves árið 2009 á Hressó. Arnar trommari kom svo í bandið því hann var vinur hans Ragga. Í raun voru þeir bara að hjálpa mér í byrjun en í kringum Músíktilraunir vorum við Raggi farin að semja saman og við ákváðum í sameiningu að verða hljómsveit.“



Hvaðan kemur nafnið, Of Monsters and Men?

„Það kemur frá Ragga en við vorum með ýmsar hugmyndir en hann var kominn með þetta nafn. Við vorum ekkert að hugsa út í það að þetta yrði nafnið sem myndi standa á plötuumslögum og skiltum úti í heimi.“ 

Gott að vera komin heim í smá afslöppun
Heimfrægð handan við hornið



Árið 2010 unnuð þið Músíktilraunir og hluti af verðlaunum ykkar var að spila á Airwaves. Var það ykkar stökkpallur út í tónlistarlífið erlendis?

„Við vorum náttúrulega nýbyrjuð þegar við unnum Músíktilraunir en við vorum ekki búin að vera hljómsveit nema í tvær vikur. Þarna sáum við möguleika á því að fá smá umfjöllun og láta taka eftir okkur. Við vorum ekki að búast við því að vinna og því var þetta voðalega skrítið og nýtt allt saman. Eftir það spiluðum við á stofutónleikum á Airwaves og útvarpsstöðin frá Seattle KEXP tók upp lagið Little Talks. Í framhaldi af þessu voru margir þættir sem gerðu það að verkum að við fengum tækifæri erlendis. Þetta gerðist svo hratt allt saman.“



Hver er svo leiðtoginn í bandinu, hver stjórnar, ert það þú?


„Nei, ég ætla ekki að segja það. Það er enginn einn sem stjórnar. Við erum svo mörg og erum öll saman í þessu hundrað prósent svo það er mikið lýðræði í hópnum. Hingað til hefur ekki verið neitt vesen enda leyfum við okkur ekki að fara þangað.“ 

Besta starf í heimi
Ertu þá ekkert búin að reyna að ala strákana upp á tónleikaferðalaginu?

„Nei, ég er ábyggilega alveg jafn slæm og þeir, ef ekki verri. Við túruðum nánast samfleytt í 18 mánuði en við höfum það voðalega fínt. Við erum með mjög góða rútu með öllum helstu þægindum. Ég get ekki ímyndað mér að túra í sendibíl og reyna að ná smákríu á öxlinni á öðrum meðlimum eins og svo margar hljómsveitir þurfa að gera. Við erum stundum að keyra í sólarhring og rútan er troðfull af fólki þannig að það ekki ekki mikið næði,“ segir hún glottandi út í annað. 



Hvernig er að vera svona lengi á tónleikaferðalagi? Það er ansi margt sem gerist á 18 mánuðum.

„Ég kann rosalega vel við mig að vera að túra og er svona aðeins að venjast því að vera heima núna. Ég veit stundum ekki hvað ég á að gera því ég er svo vön að fylgja ákveðnu prógrammi en svo núna er enginn að segja manni neitt. Umboðsmaðurinn sér um svo margt og svo erum við með aðra sem sjá um skipulagningu þegar við erum að ferðast.“

Það hlýtur að vera mikil vinna að halda utan um alla í hljómsveitinni. Það var heldur ekki auðvelt að ná tali af þér þrátt fyrir að vera á Íslandi en blaðamaður þurfti að fara í gegnum umboðsmanninn. Er hún alveg ómissandi? 

„Já, ég myndi segja það. Ég veit að margir sjá um skipulagninguna sjálfir en það er svo gott að fá að hugsa einungis um það að spila en að þurfa ekki að hugsa um allt hitt líka. Við erum bara svo heppin með umboðsmann því það er svo gott samband á milli okkar. Það er stundum svo erfitt að ná í mig því ég er svo léleg á samskiptamiðlunum eins og Facebook svo það er frábært að hafa hana til að skipuleggja hlutina.“

Vissir þú að það eru 3-4 prófílar á Facebook þar sem fólk þykist vera þú eða jafnvel þráir að vera þú?


„Nei, ég vissi ekki af þessu og það er rosa skrítið. Við finnum alveg fyrir ákveðinni aðdáun á mismunandi stöðum en ég reyni að pæla ekki of mikið í því. Þetta er skemmtilegasta starf í heimi og ég er alveg að muna að njóta þess.“ 

En finnur þú mikið fyrir því að vera eina stelpan í hljómsveitinni?

„Já, ég finn alveg fyrir því. Ég held að stelpur í tónlistarheiminum veki mikla athygli. Það vekur alltaf athygli að vera stelpan í bandinu þrátt fyrir að ég hafi aldrei hugsað um sjálfa mig sem stelpu í tónlist frekar en að vera strákur í tónlist. Ég geri ekki mikinn greinarmun á því en jú, ég er með brjóst.“ 



Hvaða áhugamál hefurðu fyrir utan tónlist?

„Ég er mjög hrifin af því að gera skapandi hluti og gera eitthvað með höndunum eins og að taka ljósmyndir og teikna. Einnig er ég hrifin af teiknimyndasögum. Svo spila ég tölvuleiki og er með klúbb þar sem við hittumst og spilum á þessar gömlu leikjatölvur eins og Nintendo. Ég er alveg pínu nörd,“ segir hún hlæjandi. 

Nú eruð þið búin að vera að túra hingað og þangað um heiminn. Hvaða staður hefur heillað þig mest á þessu ferðalagi?


„Mér fannst Japan ótrúlega spennandi og framandi staður. Þar var svo notalegt og öðruvísi og allt annað en við höfum upplifað annars staðar. Í Brasilíu voru einnig allir svo skemmtilegir og þakklátir. Það er svo gaman þegar fólk ræður ekki við sig og sýnir miklar tilfinningar.“ 



Nanna Bryndís elskar að spila á gítarinn.
Komin heim í verðskuldað frí



Hvað ætlarðu að gera um jólin?

„Nú erum við bara að taka okkur frí fram í janúar og leyfa okkur að leiðast því þegar maður er að spila alveg endalaust þá langar mann líka alveg að vera í þögn. Um jólin ætla ég því að slaka á.“ 



Hvað veitir þér innblástur í lífinu? 

„Það er erfitt að segja, stundum er það önnur tónlist en undanfarið finnst mér konur sem eru að gera góða hluti í tónlist almennt heilla mig. Það kemur stundum eitthvað skemmtilegt yfir mann, einhver tilfinning, mikil sorg eða mikil gleði. Stundum er maður að rembast eitthvað og það gengur ekkert.“



Heldurðu að þú eigir eftir að flytja og búa í útlöndum?

„Nei, ég áttaði mig á því hve vel mér líður á Íslandi eftir að hafa verið á svona miklu ferðalagi. Mér líður langbest heima en ég er einnig að átta mig á því hve það er alltaf kalt hérna. Hins vegar væri ég einn daginn til í að prófa að búa erlendis þrátt fyrir að ég endi alltaf hér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×