Tónlist

Retro Stefson í hollensku lagi

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Ánægður með útkomuna Logi Pedro er ánægður með samstarfið við Kraak&Smaak.
Ánægður með útkomuna Logi Pedro er ánægður með samstarfið við Kraak&Smaak. Mynd úr einkasafni
„Þetta gekk allt mjög vel, lagið er mjög gott,“ segir Logi Pedro Stefánsson í hljómsveitinni Retro Stefson en hann söng, ásamt Unnsteini Manúel, bróður sínum, í lagi með hollensku rafhljómsveitinni Kraak&Smaak. Retro Stefson var á tónleikaferðalagi þegar hugmynd um samstarf kom upp.

„Þeir höfðu heyrt okkur spila og höfðu samband. Vildu fá okkur til að syngja í einu lagi. Þeir vissu að við áttum nokkra frídaga í Berlín, svo þeir flugu frá Hollandi og leigðu hljóðver,“ bætir Logi við. Kraak&Smaak er afar vinsæl í raftónlistargeiranum og kom meðal annars fram í spjallþætti Jimmy Kimmel í Bandaríkjunum. Þetta lag var þó ekki eina samstarfsverkefni sveitanna tveggja.

„Þeir endurhljóðblönduðu lagið okkar Qween. Það kom ótrúlega vel út.“

Annars er í nógu að snúast hjá Retro Stefson. Sveitin heldur svokallað Blokkpartí um helgina vegna platínusölu á plötu sveitarinnar, sem ber einnig nafnið Retro Stefson, á skemmtistaðnum Harlem. Plötusnúðar munu sjá um að skemmta gestum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×