Innlent

Framboðin fjórtán þurfa yfir 20.000 meðmælendur

Alls þurfa um 23 þúsund kjósendur, tæpur tíundi hver einstaklingur á kjörskrá, að skrá sig sem meðmælanda framboðslista til þess að öll framboð til komandi þingkosninga nái markmiðum sínum. Ellefu þeirra stefna að framboði í öllum sex kjördæmum, tvö í báðum Reykjavíkurkjördæmum og eitt framboð í öðru Reykjavíkurkjördæminu.

Frestur til að skila inn listum rennur út á hádegi á föstudag. Fullbúnir listar munu liggja fyrir eftir afgreiðslu landskjörstjórnar, í síðasta lagi á miðvikudaginn í næstu viku. Hver kjósandi má aðeins mæla með einu framboði, en sé sami meðmælandi hjá fleiri en einu framboði verður hann ekki talinn meðmælandi neins þeirra. Kjósandi getur ekki dregið stuðningsyfirlýsingu sína til baka eftir að framboð hefur verið afhent yfirkjörstjórn.

Framboðin munu væntanlega safna nokkuð fleiri undirskriftum en þau í raun þurfa til að hafa borð fyrir báru varðandi ógilda meðmælendur.

Hver framboðslisti skal skipaður tvöfalt fleiri frambjóðendum en sem nemur þingmönnum kjördæmisins, þannig að fyrir framboð á landsvísu þarf 126 frambjóðendur. Nái framboðin öll markmiðum sínum verða alls 1.496 einstaklingar í framboði, sem nemur um hálfu prósenti kjörgengra Íslendinga.

Þórhallur Vilhjálmsson, ritari landskjörstjórnar, segir í samtali við Fréttablaðið að allt stefni í mikið annríki, í ljósi fjölda framboða.

„Þetta er mjög skammur tími og það eru allir á nálum yfir því að þetta sé gerlegt," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×