Innlent

Hent út af Hátíð vonar

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Sigurboða var hent út af Hátíð vonar fyrr í dag.
Sigurboða var hent út af Hátíð vonar fyrr í dag.
„Þetta var eiginlega bara félagsleg tilraun hjá mér. Mig langaði að sjá hvernig þeir myndu koma fram við mig og þeir hentu mér bara út,“ segir þungarokkarinn Sigurboði Grétarsson, en hann gerði sér ferð á Hátíð vonar í Laugardalshöllinni í dag.

Sigurboði ákvað að mála sig með svokallaðari „corpse paint“ og klæddist jakka með áletrun úr Biblíunni á bakinu til þess að sjá hvernig, eða hvort, hátíðargestir myndu bregðast við.

Eftir 40 mínútur gaf öryggisvörður sig á tal við Sigurboða og tjáði honum að hann þyrfti að fjarlægja áletrunina af jakkanum eða yfirgefa hátíðina. „Ég var ekki með neinn dólg eða leiðindi. Rétt áður hafði ein kona komið til mín og óskað þess að ég myndi finna Guð og það er bara flott, hún vildi vel. En þessi öryggisvörður spurði mig bara strax hvað ég væri eiginlega að pæla og af hverju ég væri með þetta vers á bakinu. Þetta vers er ógeðslegt en svona er þetta í Biblíunni,“ segir Sigurboði, sem sjálfur er trúlaus.

„Persónulega er ég ekki hrifinn af Biblíunni en það er bara mín skoðun. Þessi hátíð var í rauninni alveg jafn mikil óvirðing fyrir mig og ég var fyrir þau. Mér var hent út, þó ekki með valdi, en ég stóð á mínu. Ég vildi aldrei vera með nein leiðindi svo ég fór bara og fékk mér „börger“.“

Sigurboði býst ekki við því að neinir eftirmálar verði af málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×