Erlent

Sjö gíslar teknir af lífi

Hryðjuverkamenn tóku sjö gísla af lífi áður en alsírskir hermenn lögðu til atlögu við þá í gasvinnslustöðinni Almenas í hádeginu í dag samkvæmt BBC.

Hryðjuverkamennirnir sjálfir voru einnig felldir, en þeir voru ellefu talsins. Ekki er vitað um þjóðerni gíslanna sem voru drepnir. Meðal þeirra gísla sem staðfest er að hafi fallið síðan umsátrið hófst, eru tveir Japanir, tveir Bretar, Frakki og Bandaríkjamaður en alls voru 41 í gíslingu hermannanna.

Daily Telegraph greinir frá því að sérsveit hersins hefði náð að bjarga 16 gíslum en þar á meðal voru Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Portúgalir.

Þá er fjögurra daga blóðugu umsátri lokið en hryðjuverkamennirnir réðust á gasstöðina á miðvikudaginn. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur sent frá sér ályktun þar sem gíslatakan er fordæmd.

Talið að hryðjuverkamaðurinn Mokhtar Belmokhtar sé leiðtogi hópsins sem stóð á bak við árásina. Sá hlaut herþjálfun hjá Al Kaída í Afganistan þegar hann var sautján ára gamall. Sá klauf sig þó frá hryðjuverkahópnum á síðasta ári og stofnaði sjálfstæðan hóp sem nú réðst á gasstöðina. Stöðin er í eigu BP olíurisans, Statoil í Noregi og olíufyrirtækis í ríkiseigu í Alsír.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×