Innlent

Framkvæmdir í Gálgahrauni hafnar þrátt fyrir stefnu um ólögmæti

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Framkvæmdir við Áltanesveg hófust í dag.
Framkvæmdir við Áltanesveg hófust í dag. mynd/365
Vegamálastjóra var stefnt fyrir hönd Vegagerðarinnar til viðurkenningar á því að framkvæmdin sem hófst í dag um gerð Álftanesvegar milli Hafnarfjarðar og Bessastaðavegar um þvert Gálgahraun sé ólögmæt. Vísir fjallaði um málið fyrr í sumar.

Það voru Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir sem stefndu vegamálastjóra.

„Það mál er enn í gangi og hefur engin áhrif á framkvæmdirnar,“ segir Stefán Erlendsson lögfræðingur hjá Vegagerðinni. Það er tiltölulega nýbúið að stefna Vegagerðinni, það var gert núna fyrr í sumar."

„Málið er fyrir héraðsdómi og Vegagerðin fékk frest til 10. september næstkomandi til þess að skila inn greinargerð í málinu. Í kjölfarið tekur héraðsdómur málið fyrir og það fer eftir málshraðanum þar hvenær málinu lýkur," segir Stefán.

„Þegar  málið var höfðað var búið að bjóða verkið út. Þá skapast skylda á Vegagerðina að semja við þann verktaka sem á hagstæðasta tilboðið. Ef að málið yrði stoppað er nokkuð víst að Vegagerðin yrði skaðabótaskyld gagnvart þeim verktaka sem átti hagstæðasta tilboðið."

Stefán segir að afstaða Vegagerðarinnar sé sú að þessi málsókn eigi ekki við rök að styðjast og Vegagerðin sjái ekki tilefni til þess að fara í þá aðgerð að hætta við útboðið þrátt fyrir málsóknina.

„Það er ekki hægt að segja til um það á þessu stigi hvernig Vegagerðin myndi bregðast við ef framkvæmdin yrði dæmd ólögmæt,“ segir Stefán að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×