Erlent

Samsæriskenningar á kreiki um árásina í Sandy Hook

Allt frá því að hinn tvítugi Adam Lanza gekk inn í Sandy Hook barnaskólann í Connecticut, þann 14. desember síðastliðinn og myrti þar 26 einstaklinga, hafa fjölmargar samsæriskenningar um skotárásina verið á kreiki.

Kenningarnar eru af ýmsum toga. Þær taka meðal annars til föðurs ofbeldismannsins. Því hefur verið haldið fram að hann hafi átt að bera vitni vegna tengsla sinna við vaxtasvindl Barclays bankans, eða Libor-málsins, daginn eftir árásina. Þannig hafi voðaverkin verið truflun.

Sú kenning sem vakið hefur hvað mesta athygli lýtur að Barack Obama, Bandaríkjaforseta, og að voðaverkin í Sandy Hook hafi aðeins verið liður í áætlun hans um að koma á hertari vopnalöggjöf í Bandaríkjunum.

Svo virðist sem að samsærismenn séu almennt sammála um að skotárásin í Sandy Hook hafi ekki átt sér stað eða þá að hún hafi átt sér stað með allt öðrum hætti en helstu fjölmiðlar hafa greint frá.

Sem fyrr hefur veraldarvefurinn reynst hentugur vettvangur til að ræða slíkar kenningar. Fjölmargir hafa ræða sín á milli um málið á spjallsvæðum á borð við Above Top Secret, Natural News og InfoWars. En kenningarsmiðir nýta sér nú myndbandavef YouTube í mun meira mæli en áður. Þannig hefur heimildarmyndin „The Sandy Hook Shooting - Fully Exposed" vakið gríðarlega athygli og hafa um átta milljón manns horft á myndbandið þegar þetta er skrifað.

Hægt er að horfa á myndbandið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×