Innlent

Veðurfræðingur hvetur fólk til að dansa í rigningunni

Heimir Már Pétursson skrifar
Ekkert lát verður á rigningunni næstu tíu daga eða svo.
Ekkert lát verður á rigningunni næstu tíu daga eða svo.
Ekkert lát verður á rigningu á höfuðborgarsvæðinu, vestur- og suðurlandi næstu tíu daga. Veðurfræðingur segir fólk verða að finna barnið í sér og dansa í rigningunni eins og segir í frægu lagi.

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu, vestur- og suðurlandi eru margir hverjir orðnir þreyttir á votviðrinu undanfarnar vikur, en eins og flestir vita hefur ringt mikið á þessum svæðum það sem af er mánuði sem og í síðasta mánuði. Björn Sævar Einarsson veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir ekki útlit fyrir uppstyttu á höfuðborgarsvæðinu á næstunni með einni undantekningu.

„Já, það verður bæði rigning eða súld og yfirleitt skýjað. En það verður sól á miðvikudag svona frameftir degi. Svo eru bara áframhaldandi sunnanáttir og væta,“ segir Björn Sævar.

Þetta eigi einnig við um stóran hluta Vesturlands og Suðurlands. Sólarmesta veðrið verði á Norðaustur- og Austurlandi. En hvað segir spákúlan Birni Sævari ef hann lítur aðeins lengra fram í tímann?

„Það lítur alla vega ekki út fyrir neinar breytingar næstu tíu daga í veðrakerfunum," segir hann. Það er því útlit fyrir að júlímánuður verði votviðrasamur eins og júnímánuður.



„Þannig að við verðum bara að finna barnið í okkur og fara í pollagalla og hoppa í drullupollunum eins og litlu börnin,“ segir Björn Sævar sporskur. - Já, eða dansa bara í rigningunni eins og segir í laginu?

„Já, já, Singing in the Rain.“

Björn segir bændur standa betur að vígi nú eftir að rúllubaggarnir komu og séu ekki eins háðir þurrki og áður, en hann á að hanga þurr á miðvikudag.

„Þeir geta slegið á þriðjudagskvöldið og hirt heyið seinnipartinn á miðvikudag,“ segir Björn Sævar Einarsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×