Íslenski boltinn

"Rajko er algjör öðlingur“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, hefur ekki áhyggjur af því að markvörðurinn Srdjan Rajkovic muni bregðast illa við gagnrýni sem hann fékk fyrir frammistöðu sína gegn ÍBV í gær.

Eins og sést í meðfylgjandi myndskeiði komst ÍBV í 2-0 forystu með tveimur sjálfsmörkum sem komu afar illa út fyrir Rajkovic. Leiknum lauk svo með 3-1 sigri Eyjamanna.

„Hann gerði mistök en hann er eldri en tveggja vetra,“ sagði Páll Viðar í samtali við Vísi í morgun. „Auðvitað er þetta áberandi en hann hefur verið flottur í markinu hjá okkur, þrátt fyrir þessi mistök.“

„Það er alveg ljóst að ef einhver getur tekist á við mótlæti eins og þetta þá er það Rajko. Þetta er því ekkert sérstakt mál hjá okkur sem þarf að takast á við - það gera flestir mistök.“

Eftir leikinn fór umræða af stað á samskiptamiðlum á borð við Twitter þess efnis að Rajkovic hlyti að hafa hagnast á veðmálabraski með því að gefa þessi tvö mörk.

„Ég get staðfest að Rajko er algjör öðlingur og leggur sig alltaf hundrað prósent fram. Hann er alvöru atvinnumaður. Auðvitað fer alls konar umræða í gang þegar svona lagað kemur upp á en ég vísa öllu til föðurhúsanna.“

„Við sem þekkjum Rajko hlæjum bara að þessu,“ segir Páll Viðar enn fremur.

Þjálfarinn segir að úrslitin í gær hafi enga sérstaka þýðingu - liðið og leikmenn þess haldi bara áfram. „Við kennum aldrei neinum einstaklingum um svona lagað. Við tökum öllu sem liðsheild, bæði sigri og töpum. Það er ekkert öðruvísi í dag.“

Sjálfur segir Rajkovic í viðtali við mbl.is í dag að umræðan um veðmálabrask eigi ekki rétt á sér. „Ég er búinn að sjá þetta allt á Twitter og þetta er mesta rugl í heiminum. Ef maður ætlaði að gera eitthvað svona þá færi maður ekki þessa leið. Ég er mjög pirraður yfir þessu en ég er með breitt bak," sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×