Viðskipti innlent

Latibær á hverju einasta heimili í Bandaríkjunum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Latibær mun ná inn á hvert einasta heimili í Bandaríkjunum í vetur þegar þriðja þáttaröð verður tekin til sýninga á NBC sjónvarpsstöðinni í október. Þriðja þáttaröðin hefur nú þegar verið seld til 120 landa og enn eiga mörg lönd í samningaviðræðum við Latabæ um sýningaréttinn.

„Við höfum fundið fyrir því að það hefur beðið með mikilli eftirvæntingu eftir nýju efni frá Latabæ og við erum að fá mjög gott verð fyrir þættina,“ segir Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri sölusviðs Latabæjar. „Við höfum nú þegar farið fram úr áætlunum um sölu á þáttaröðinni, sem er einstaklega ánægjulegt.“

Nýjasta þáttaröðin um ævintýri íbúa Latabæjar hefur víða fengið mjög góðar viðtökur og áhorfstölur lofa góðu. „Við erum undantekningalaust að sjá nýju þættina fara langt yfir meðal áhorfstölur þeirra stöðva sem þeir eru sýndir á,“ segir Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og kynningamála hjá Latabæ.

Um þessar mundir standa yfir upptökur á fjórðu þáttaröð Latabæjar í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Garðabæ. Þáttaröðin mun fara í sýningu á næsta ári. Þriðja þáttaröðin verður m.a. sýnd í Ástralíu, Ítalíu, Spáni og Þýskalandi. Latabær er sýndur á Stöð 2 hér á landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×