„Hann rifjaðist upp fyrir mér þessi löngu týndi maður sem aldrei fannst,“ segir Jón Haukur Jóelsson, sem rakst á dularfulla ljósmynd þegar hann kom heim úr ferðalagi um Snæfellsnesið í fyrra.
Þar vísar hann til Bjarna Matthíasar Sigurðssonar, en í gærkvöldi var þátturinn Mannshvörf á dagskrá Stöðvar 2 og var þar sagt frá hvarfi hans árið 1974. Bjarni fór með dóttur sinni og tengdasyni í berjamó á Snæfellsnesi, og síðan hefur ekkert til hans spurst.
Síðasta sumar hugðist Jón, sem er rafvirki á níræðisaldri, skoða Vatnshelli í Purkhólahrauni ásamt vini sínum, en þegar félagana bar að garði var hellirinn lokaður og leiðsögumennirnir farnir heim.
„Við fórum niður jarðfall sem liggur að hellismunnanum og náðum að kíkja inn í hellinn í gegnum gler, en þegar vinur minn er á leið upp aftur spyr ég hann hvort ég eigi ekki að smella af einni eða tveimur myndum, fyrst við séum nú komnir,“ segir Jón, en hann smellti mynd af holu í bergvegg við hlið hellisins.
Þegar heim var komið hlóð Jón ljósmyndum ferðalagsins inn á tölvu sína af minniskubbi myndavélarinnar, en hún er af gerðinni Canon IXUS 75.
„Þegar ég fer að fletta myndunum sé ég þarna mannsmynd og ég hringi í vin minn og spyr hann hver hafi verið þarna með okkur. Hann fullyrti að þarna hefði enginn verið nema við tveir,“ bætir Jón við, en hann segist tæma minniskubb vélarinnar eftir hverja notkun og því geti ekki verið um gamla upptöku að ræða. „Ég þekki engan mann með þessa holningu, og allra síst hef ég tekið mynd af manni sem lítur svona út.“
Jón dregur þó engar ályktanir, þó vissulega hafi honum dottið hvarf Bjarna í hug þegar hann sá myndina. „Ég get ómögulega gert mér grein fyrir því hvort um þennan mann er að ræða. Ég hef alltaf verið vantrúaður á annað líf og þess háttar.“ Sjá má brot úr umfjölluninni um hvarf Bjarna úr þættinum Mannshvörf hér fyrir neðan og á sjónvarpsvef Vísis.