Viðskipti innlent

2.600 Íslendingar hafa sótt sér AUR

Samúel Karl Ólason skrifar
Dreifing á íslensku rafmyntinni Auroracoin hófst í nótt, en hún mun í raun standa yfir næsta árið. Auroracoin er hugarfóstur manns, sem gengur undir dulnefninu Baldur Friggjar Óðinsson. Hann segir myntina vera tækifæri til að segja skilið við verðbólgu, gjaldeyrishöft og gengisfellingu hins hefðbundna fjármagnskerfis.

Ávarp Baldurs til Íslendinga vegna dreifingarinnar má sjá hér. Dreifingin fór nú ekki áfallalaust af stað og hrundi síðan skömmu eftir miðnætti vegna álags og hefur ekki komið aftur upp. Nú er mögulegt að sækja sinn skammt á Auroracoin.org.

Til að fá 31,8 AUR þarf íslenska kennitölu og staðfesta á sér auðkenni í gegnum síma eða Facebook.

Auroracoin byggir á Litecoin, sem er einskonar afkomandi Bitcoin. Það sem aðgreinir Auroracoin einnig frá Bitcoin og Litecoin er að helmingur alls mögulegs peningamagns í kerfinu hefur þegar orðið til. Þeir peningar hafa orðið til eru í vörslu Baldurs, en hann er nú að dreifa því til Íslendinga.

Heildarfjármagn Auroracoin er 21 milljón en 10,5 milljónir eru nú til dreifingar til Íslendinga.

Þá upphæð tók Baldur og deildi með 330.000 þúsund, sem samsvarar 31,8 AUR. Eftir fjóra mánuði verður upphæðinni sem ekki var sótt, deilt niður á fjölda þeirra sem sóttu í fyrstu umferðinni.

Þá verður dreifingin endurtekin og aðeins þeir sem sóttu í fyrstu umferð geta sótt aftur. Leikurinn verður svo endurtekinn í annað sinn. Þannig gerir Baldur ráð fyrir að dreifingin muni taka tólf mánuði.

Efst í fréttinni má sjá frétt Stöðvar 2 um myntina frá því í gær, þegar Kjartan Hreinn Njálsson ræddi við Jóhann Eiríksson,talsmann Auroracoin.

Seðlabankinn og fjórar aðrar stofnanir vöruðu við notkun Auroracoin í síðustu viku, eins og Vísir sagði frá.

Sú aðvörun snerist að mestu um að gildandi lög á Íslandi verndi neytendur ekki gegn tapi á sýndarfé, til dæmis ef „markaðstorg“ sem skiptir eða varðveitir sýndarfé bregst skyldum sínum, eða greiðsla misferst.

Baldur telur líklegt að notkun myntarinnar muni aukast jafnt og þétt með tímanum og að jafnvægi muni nást á gengið. Hér má fylgjast með gengi myntarinnar.

Hér verður mögulegt að fylgjast með hverjir taka við myntinni og hvað sé hægt að kaupa með Auroracoin. Þó er, enn sem komið er, ekkert komið inn á þessa síðu.

Hér að neðan er hægt að sjá umfjöllun um Auroracoin á Twitter og hafa þó nokkrir Íslendingar sagt frá því að þeir hafi sótt sér AUR.


Tengdar fréttir

Íslensk rafmynt hækkar hratt í verði

Virði hinnar nýju rafmyntar, Auroracoin, hefur rokið upp á síðustu dögum og hefur hækkað um tæp 120 prósent síðasta sólarhring.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×