Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokks var í dag kjörinn forseti Norðurlandaráðs. Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna bauð sig fram gegn Höskuldi. Steingrímur fékk 9 atkvæði og Höskuldur 52.
Þetta er í fyrsta skipti sem forsetaefni Norðurlandaráðs fær mótframboð en fyrirfram var búist við því að Höskuldur yrði kjörinn. Systurflokkar Vinstri grænna á Norðurlöndum studdu Steingrím en einnig Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar.
„Þetta er eitthvað sem beinist ekki persónulega gegn Höskuldi. En á meðan Framsóknarflokkurinn hefur ekki útskýrt með mjög skýrum hætti hvert hann er að fara í grundvallarmálefnum eins og trúfrelsi og rétti manna til að byggja sér þau bænahús sem þeir vilja þá er enginn flokkur á Íslandi jafn langt í burtu frá Bjartri framtíð eins og Framsóknarflokkurinn. Við munum ekki styðja fulltrúa hans til nokkurra trúnaðarstarfa á meðan svo er,“ segir Róbert Marshall þingmaður Bjartrar framtíðar.
