Innlent

Gerir ekki ráð fyrir löngu verkfalli

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Línur í samningaviðræðum framhaldskólakennara við ríkið eru farnar að skýrast. Fundarhöld gengu vel bæði í gær og í dag, þó enn eigi eftir að taka á stærstu málunum. Ólafur H. Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda í framhaldsskólum segist vona að samningar náist í næstu viku.

„Við getum sagt að málin hafi skýrst á milli aðila og að báðir hafi lagt fram hluti sem að liðkuðu til. Það er meiri skilningur á milli en var áður og við erum bjartsýnni í dag en í fyrradag,“ segir Ólafur.

Hann segir þó að enn sé mikil vinna eftir áður en sjáist í land. Stytting framhaldskólans er eitt af stóru málunum sem nú eru til umræðu. Ólafur segir mikilvægt að finna lausn á deilunni sem fyrst, svo hún haldi ekki áfram að koma niður á framhaldsskólanemum.

„Ég myndi ekki halda að verkfallið verði langt þó það sé ekki ennþá kominn niðurstaða í ákveðin mál. Ég er að vonast til að við getum klárað þetta í næstu viku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×