Þegar málið kom upp fyrir hálfu ári síðan sagði Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, erlendu síðuna vera til rannsóknar hjá lögreglu og að reynt verði að fá síðunni lokað. Ekkert hefur þó gerst í málinu og nýjar ólöglegar myndir af stúlkum uppfærðar daglega á síðuna, sem er lögbrot samkvæmt almennum hegningarlögum.
„Svona mál eru erfið fyrir lögregluna, sérstaklega þegar um erlendar síður er að ræða. Við getum ekki stjórnað internetinu,“ segir Friðrik Smári þegar hann er spurður um gang rannsóknarinnar. Hann segir rannsókn þó enn vera í gangi en enga niðurstöðu liggja fyrir.
Aðspurður hvort ekki sé hægt að leita uppi þá sem dreifa myndum út frá ip-tölum segir hann málið flóknara en svo. „Ip-tölur liggja ekki alltaf fyrir þar sem fólk fer þráðlaust inn á netið og þá koma allt aðrar tölur fram. Það er bara engin leið að stöðva svona dreifingu sem er komin af stað og mjög erfitt að hafa upp á þeim sem standa fyrir dreifingunni.“

„Börn og unglingar verða að átta sig á því að um leið og eitthvað er farið á netið þá missum við stjórn á því,“ segir Friðrik. „Þetta er því allt spurning um forvarnir og fræðslu til unglinga.“
Ekkert sérstakt átaksverkefni er í gangi innan lögreglunnar um netöryggi unglinga. Þegar Friðrik er spurður hvort lögreglan þurfi ekki að taka þennan málaflokk fastari tökum segir hann vissulega þörf fyrir átak í þessum málum.
„Lögreglan ein og sér getur samt ekki stemmt stigu við þessu, það þarf fleiri til. Það þarf aðgerðir í þessum efnum og það kallar á samstarf margra aðila,“ segir Friðrik Smári og bætir við að þessi síða sé ekki eitt einangrað tilvik heldur hafi lögreglan fengið nokkrar tilkynningar um sambærilegar síður.