Innlent

Telur hæpið að sett verði lög á flugvirkja

Höskuldur Kári Schram skrifar
Vísir/Anton
Sólahringsverkfall flugvirkja hjá Icelandair hófst klukkan sex í morgun. Verkfallið hefur áhrif á um tólf þúsund farþega en alls var Sextíu og fimm flugferðum aflýst. Ótímabundið verkfall hefst á fimmtudag ef ekki verður búið að leysa deiluna fyrir þann tíma.

Deiluaðilar ætla að funda hjá ríkissáttasemjara í dag og hefst fundur klukkan tvö. Maríus Sigurgjónsson er formaður samninganefndar flugvirkja. Hann segist hafa fulla von til þess að samningar náist fyrir fimmtudag en enn sé of snemmt að lofa einhverju.

„Búið er að ræða alla efnisþætti mjög vel. Þegar það næst sátt ætti að vera hægt að ganga frá samningi mjög fljótt,“ sagði Maríus í hádegisfréttum Bylgjunnar. Hann segir viðræður stranda á umræðu um vinnufyrirkomulag flugvirkja.

Ríkisstjórnin setti lög á verkfall flugmanna í síðasta mánuði og ekki er útilokað að það sama verði gert nú. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, hefur lýst því yfir að lagasetningu verði ekki beitt nema Alþingi verði fyrst kallað saman. Maríus segir að lagasetning brjóti gegn stjórnarskránni.

„Mér lýst ekkert á það ef sú umræða er uppi. Við skulum bara bíða og sjá til. Við höfum ítrekað bent á að við teljum svoleiðis ráðstöfun vera ólöglega og ekki standast stjórnarskrá og mannréttindasáttmála,“ segir Maríus. Hann segir flugvirkja reyna að láta umræðu um lagasetningu ekki hafa áhrif á viðræðurnar.

„Við teljum hæpið að ríkið haldi áfram á þessari braut.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×