Innlent

„Mér þykir stórkostlega vænt um landsbyggðina og allt það fólk sem þar býr“

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ekkert mál er líklegra til að koma landsmönnum úr jafnvægi en flugvallarmálið. Þetta segir rithöfundurinn Einar Kárason sem hefur fengið fjölda hótunarbréfa eftir að hann gagnrýndi málflutning flugvallarsinna á landsbyggðinni.

Reykjavíkurflugvöllur komst enn á ný í umræðuna í vikunni þegar að þingmenn Framsóknarflokksins lögðu til á Alþingi að skipulagsvaldið, þegar kemur að flugvellinu, yrði tekið af Reykjavíkurborg og flutt til ríkisins.

Einar Kárason rithöfundur skrifaði um málið á facebook og vöktu skrifin mikla athygli. Þar sagði hann það frekju í hyskinu af landsbyggðinni að heimta að stjórna nærumhverfi borgarbúa.

„Ég get alveg fallist á það sjónarmið að hérna landsbyggðarfólks að það eigi að vera flugvöllur í Reykjavík. En hvar hann er í Reykjavík því hljótum við að ráða,“ segir Einar.

Honum hefur borist fjöldi hótunarbréfa eftir skrif sín. „ Það eru margir alveg öskuvondir,“ segir Einar. Honum þykir leitt ef hann hefur móðgað einhvern með skrifum sínum og segir ekkert mál líklegra til að koma landsmönnum úr jafnvægi en flugvallarmálið. „ Mér þykir stórkostlega vænt um landsbyggðina og allt það fólk sem þar býr,“ segir Einar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×