Fótbolti

Milik styrkti stöðu sína í baráttunni við Kolbein

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kolbeinn í baráttu við Andres Iniesta í leik Ajax og Barcelona í Meistaradeild Evrópu í síðasta mánuði.
Kolbeinn í baráttu við Andres Iniesta í leik Ajax og Barcelona í Meistaradeild Evrópu í síðasta mánuði. Vísir/Getty
Landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson lék síðustu 15 mínútur leiksins þegar Ajax vann Cambuur með fjórum mörkum gegn tveimur á útivelli í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Kolbeinn, sem verður væntanlega í eldlínunni með íslenska landsliðinu sem mætir Belgíu og Tékklandi seinna í vikunni, kom inn á 75. mínútu fyrir pólska framherjann Arkadiusz Milik sem gerði tvö af mörkum Ajax.

Cambuur náði reyndar forystunni strax á 2. mínútu með marki Sebastian Steblecki, en Milik jafnaði metin á 19. mínútu.

Aðeins fjórum mínútum síðar kom Davy Klaassen hollensku meisturunum yfir og þannig stóðu leikar fram á 60. mínútu þegar Milik skoraði sitt annað mark og þriðja mark Ajax.

Það var síðan Anwar El Ghazi sem skoraði fjórða og síðasta mark Ajax á 78. mínútu eftir sendingu frá Kolbeini. Þetta var önnur stoðsendingin sem íslenski framherjinn gefur í deildinni í vetur. Cambuur-maðurinn Bartholomew Ogbeche skoraði lokamark leiksins úr vítaspyrnu á 90. mínútu og minnkaði muninn í 2-4.

Kolbeinn á í harðri baráttu við áðurnefndan Milik um sæti í Ajax-liðinu, en sá pólski styrkti eflaust stöðu sína með mörkunum tveimur í dag. Milik hefur skorað fimm mörk í hollensku deildinni gegn þremur hjá Kolbeini. Pólverjinn hefur að auki aðeins þurft 347 mínútur til að skora mörkin sín fimm á meðan Kolbeinn hefur þurft 742 mínútur til að skora sín þrjú mörk.


Tengdar fréttir

Messi afgreiddi Ajax | Sjáðu mörkin

Barcelona er komið áfram í Meistaradeildinni eftir 0-2 sigur á Ajax þar sem Lionel Messi jafnaði markamet deildarinnar.

Þægilegt hjá Ajax

Kolbeinn Sigþórsson spilaði allan leikinn í þægilegum sigri Ajax á FC Dordrecht í hollensku úrvalsdeildinni í dag.

Suárez snýr aftur "heim" til Ajax í kvöld

Luis Suárez og félagar í Barcelona eru mættir til Hollands þar sem þeir mæta Ajax á Amsterdam ArenA í Meistaradeildinni í kvöld en leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport og Stöð 2 Sport HD og hefst leikurinn klukkan 19.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×