Sport

Aníta og Hafdís fá samkeppni að utan

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hafdís og Aníta á Meistaramótinu norðan heiða síðastliðið sumar.
Hafdís og Aníta á Meistaramótinu norðan heiða síðastliðið sumar. Mynd / Gunnlaugur Júlíusson
Tveir öflugir keppendur hafa skráð sig til leiks í frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna (e. Reykjavík International Games) sem fer í Laugardalnum þann 19. janúar.

Sosthene Taroum Moguenera, 24 ára langstökkvari frá Þýskalandi, hefur boðað komu sína á leikana. Moguenera á best 7,04 metra frá því á síðasta ári. Hún var á meðal keppenda á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012 en komst ekki í úrslit. Hún komst hins vegar í úrslit á heimsmeistaramótinu í Moskvu síðastliðið sumar.

Íslandsmethafinn Hafdís Sigurðardóttir fær því heldur betur verðuga samkeppni. Norðankonan, sem keppir fyrir UFA, bætti Íslandsmet Sunnu Gestsdóttur í sumar þegar hún stökk 6,36 metra.

Þá hefur 800 metra hlauparinn Aline Krebs skráð sig til leiks og gæti veitt Íslandsmethafanum Anítu Hinriksdóttur verðuga keppni. Þjóðverjinn 25 ára á best 2:03.50 mínútur utanhúss en Íslandsmet Anítu utanhúss frá því í júní er 2:00,49 mínútur.

Besti tími ÍR-ingsins innanhúss, sem er um leið Íslandsmet, er hins vegar 2:03,27 mínútur og er tæplega árs gamalt.

Nánari upplýsingar um frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikana má finna á heimasíðu þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×