Enski boltinn

Walcott sleppur við refsingu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Theo Walcott á æfingu hjá Arsenal.
Theo Walcott á æfingu hjá Arsenal. Nordicphotos / Getty
Theo Walcott, kantmaður Arsenal, stríddi stuðningsmönnum Tottenham er hann var borinn af velli í 2-0 sigri í enska bikarnum í knattspyrnu um helgina.

Walcott fékk að heyra það hjá stuðningsmönnum Tottenham þegar hann var borinn af velli er staðan var 2-0. Hann svaraði fyrir sig með því að minna stuðningsmennina á stöðuna í leiknum. Fyrir vikið rigndu smáaurum og öðru lauslegu yfir enska landsliðsmanninn.

Aganefnd enska knattspyrnusambandsins segir í yfirlýsingu að sambandið muni vinna með báðum félögum að því að komast að því hvaða stuðningsmenn köstuðu hlutum inn á völlinn. Þeim verði refsað og gætu verið bannaðir frá knattspyrnuleikjum á Englandi.

Þá var Theo Walcott minntur á skyldur sínar sem leikmaður gagnvart stuðningsmönnum. Honum verður þó ekki refsað fyrir framkomu sína að því er Guardian greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×