Enski boltinn

Van Gaal: Vorum að spila okkar besta leik á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, skráir eitthvað hjá sér í kvöld.
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, skráir eitthvað hjá sér í kvöld. Vísir/Getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, sá sína menn lenda tvisvar undir á móti West Bromwich Albion í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en landi hans Daley Blind tryggði liðinu 2-2 jafntefli þremur mínútum fyrir leikslok.

„Ég er mjög vonsvikinn því við vorum að spila okkar besta leik á tímabilinu og þetta er ekki nógu góð úrslit," sagði Louis van Gaal við BBC eftir leikinn.

„Við gátum unnið þennan leik en það skiptir engu máli í okkar heimi. Við verðum samt að vera ánægðir með það að ná að skapa fullt af færum og það að West Brom fékk bara tvö. Við gáfum þetta frá okkur sem er synd því það hefði verið eins og ný byrjun ef við hefðum unnið leikinn í kvöld," sagði Van Gaal.

Manchester United gat náð fjórða sæti deildarinnar með sigri en situr nú í sjötta sætinu einu stigi á eftir Liverpool sem er í fimmta sæti.


Tengdar fréttir

Berahino: Ég læt fótboltann minn um það að tala

Saido Berahino skoraði seinna mark West Bromwich Albion í kvöld þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Manchester United í kvöld í síðasta leiknum í áttundu umferð ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×