Sænski sjóherinn hefur girt af svæði í kringjum eyjuna Nåttarö í suðurhluta skerjagarðsins í kringum sænsku höfuðborgina Stokkhólm.
Sænskir fjölmiðlar hafa greint frá því að skip sjóhersins girði nú af svæði og hafi fyrirskipað öðrum skipum að halda sig í tíu kílómetra fjarlægð frá svæðinu hið minnsta. Þá hefur öllu flugi um leitarsvæðið verið bannað fram á föstudag.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, reyndi að draga úr atburðunum á fréttamannafundi sem hann hélt með Alexander Stubb, forsætisráðherra Finnlands, fyrr í dag. „Við framkvæmum neðansjávarleit í skerjagerðinum í Stokkhólmi, ekki kafbátaleit,“ sagði forsætisráðherrann.
Löfven sagði Svía hafa orðið vitni að aukinni rússneskri umferð síðustu mánuði, en að það sé ekki ástæða til að hafa of miklar áhyggjur.
Fyrr í dag kölluðu rússneskir fjölmiðlar leit sænska sjóhersins í skerjagarðinum „sænska æfingu“, auk þess að rússnesk yfirvöld héldu því fram að kafbáturinn væri mögulega hollenskur. Hollendingar hafa þó neitað slíkum fullyrðingum.
Að sögn sænska ríkissjónvarpsins hefur sendiráð Rússlands í Stokkhólmi ekki vilja tjá sig um málið.
Hafa girt af svæði í kringum eyju í skerjagarðinum

Tengdar fréttir

Segja kafbátinn í skerjagarðinum í Stokkhólmi vera frá Rússlandi
Daginn áður en leitin hófst námu sænsk yfirvöld talstöðvarskilaboð á rússnesku.

Sænski herinn leitar kafbáts í skerjagarðinum í Stokkhólmi
Talsmaður sænska hersins segir að "trúverðugar upplýsingar“ hafi borist um að erlendur kafbátur væri undir yfirborðinu í skerjagarðinum.

Hafna fullyrðingum um kafbát í vanda
Leit sænska sjóhersins að kafbáti í sænska Skerjagarðinum hefur engan árangur borið. Talið er að kafbáturinn sé rússneskur og eigi við einhvers konar vélarbilun að stríða en Rússar vísa þessum fullyrðingum á bug.