Enski boltinn

Daley Blind tryggði United eitt stig á móti WBA - sjáið mörkin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daley Blind fagnar hér jöfnunarmarkinu.
Daley Blind fagnar hér jöfnunarmarkinu. Vísir/Getty
West Bromwich Albion og Manchester United gerðu 2-2 jafntefli á Hawthorns í kvöld í lokaleik áttundu umferðar í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Það var Hollendingurinn Daley Blind sem tryggði United eitt stig með laglegu skoti þremur mínútum fyrir leikslok en United-menn áttu möguleika á því að vinna þriðja leikinn í röð og komast upp í fjórða sæti deildarinnar.

Blind skoraði markið sitt á 87. mínútu eftir að hafa fengið boltann frá vörn WBA. Hann tók sinn tíma áður en hann lagði boltann laglega í hornið framhjá Boaz Myhill í marki WBA

West Bromwich liðið komst tvisvar yfir í leiknum, fyrst með marki Stephane Sessegnon á 8. mínútu og svo aftur með marki á 66. mínútu en varamaðurinn Marouane Fellaini jafnaði metin á 48. mínútu eða aðeins þremur mínútum eftir að hann kom inná sem varamaður.

Það er hægt að sjá öll mörkin í leiknum hér fyrir neðan en þeir Daley Blind og Marouane Fellaini voru báðir að skora sín fyrstu úrvalsdeildarmörk fyrir Manchester United.

Manchester United mistókst að komast upp fyrir West Ham (4. sæti) og Liverpool (5. sæti) en er nú í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, einu stigi á eftir Liverpool og einu stigi á undan Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×