Viðskipti innlent

„Ísland er ekki góður staður til að reka alþjóðlegt fyrirtæki“

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Auk þess að vera stjórnarformaður Össurar er Jacobsen einnig stjórnarformaður Lego, varaformaður stjórnar flutningafyrirtækisins A.P. Møller Mærsk og stjórnarmaður hjá raftækjaframleiðandanum Sennheiser.
Auk þess að vera stjórnarformaður Össurar er Jacobsen einnig stjórnarformaður Lego, varaformaður stjórnar flutningafyrirtækisins A.P. Møller Mærsk og stjórnarmaður hjá raftækjaframleiðandanum Sennheiser. Össur

Niels Jacobsen stjórnarformaður Össurar hf. fór hörðum orðum um íslenskt viðskiptaumhverfi og stjórnvöldum á aðalfundi félagsins í morgun og lýsti yfir miklum áhyggjum af stöðu fyrirtæksins vegna gjaldeyrishaftanna á Íslandi.

Jacobsen sagði Össur starfa með undanþágum frá gjaldeyrishöftunum og ef ekki væri fyrir þessar undanþágur þá væri það ómögulegt að starfrækja fyrirtækið hér á landi.

Hann sagðist hafa nefnt það síðustu þrjá aðalfundi hversu áhyggjufullur hann væri af stöðunni í íslensku viðskipta- og lagaumhverfi.

Jacobsen nefndi að Ísland hefði verið í umsóknarferli hjá Evrópusambandinu og það hefði verið besta tækifæri Össurar til að komast út úr þeirri erfiðu stöðu sem fyrirtækið hefur verið í vegna gjaldeyrishaftanna og komast þannig í öruggara og fyrirsjáanlegra lagaumhverfi.

„Því miður eru áhyggjur mínar enn gildar þar sem íslensk stjórnvöld hafa í hyggju að enda umsóknarferlið án þess að nokkuð plan sé í sjónmáli,“ sagði Jacobsen.

Hann sagði enga áætlun við lýði við að aflétta gjaldeyrishöftunum, þrátt fyrir að um sex ár séu liðin frá því þeim var komið á.

Hann sagði Össur ver alþjóðlegt fyrirtæki með sölu, markaðssetningu og starfsemi á heimsvísu. Það sé algjörlegt lífsnauðsynlegt fyrir slíkt fyrirtæki að starfa í umhverfi sem bæði er opið og fyrirsjáanlegt.

„Sú er ekki staðan á þessari stundu og það sem verra er, engin lausn er í sjónmáli,“ sagði Jacobsen.

Hann sagði Össur hafa laðað sig að þessu ástandi að einhverju leyti. Öll fjármál séu framkvæmd í gegnum erlend félög og hefðbundin fjármunastarfsemi eigi undir undanþágur frá gjaldeyrishöftunum.

„Þetta gengur ekki til lengri tíma. Á þessari stundu er Ísland ekki góður staður til að reka alþjóðlegt fyrirtæki. Þetta er meiriháttar áhyggjuefni og ég vona að það verði komið fram með lausn fljótlega,“ sagði Jacobsen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×