Innlent

Framhaldsskólanemar halda partí vegna verkfalls

Baldvin Þormóðsson skrifar
Framhaldsskólanemar eru margir hverjir með kvíðahnút í maganum vegna verkfallsins.
Framhaldsskólanemar eru margir hverjir með kvíðahnút í maganum vegna verkfallsins.
Við viljum bara dreifa huga samnemenda okkar vegna verkfallsins, segir Hilmar Jökull Stefánsson, framhaldsskólanemi. En við erum ekki að fagna verkfallinu, alls ekki.

Hilmar ákvað ásamt vini sínum, Hauki Má Tómassyni, að skipuleggja viðburð sem haldinn verður næstkomandi föstudag þar sem framhaldsskólanemum er boðið í partí í Turninn í Kópavogi. 

Við ákváðum að hafa þetta á föstudaginn, þar sem það er síðasti skóladagurinn og svona, segir Haukur Már. En við viljum bara skemmta framhaldsskólanemum í kjölfar umræðunnar.

Stofnuðu þeir vinirnir félagið Fjörboltinn fyrir viðburðinn, og stefna þeir að því að halda fleiri slík partí í framtíðinni.

„Við ákváðum að stofna þetta til þess að halda einhvern viðburð og okkur datt bara í hug nafnið Fjörboltinn þar sem það vísar til skemmtana, segir Haukur Már.

„Skólameistarinn okkar í MK gekk á milli stofa í dag að ræða við nemendur hvað gæti hugsanlega gerst og svona. Við ákváðum að það þyrfti að gera eitthvað jákvætt til að dreifa athyglinni,“ segir Hilmar.

En eins og við segjum, þá erum við ekki að fagna verkfallinu, heldur viljum við skemmta framhaldsskólanemum, segir Haukur Már.

Á Facebook viðburði partísins eru um það bil 500 framhaldsskólanemar búnir að staðfesta komu sína og ennþá fjórir dagar í veisluhöldin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×