Innlent

Lögreglan nýtur áfram mest trausts

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/pjetur/mmr
Íslendingar bera mest traust til lögreglunnar, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Ríkisútvarpsins og Landsvirkjunar. Færri bera mikið traust til bankakerfisins, Alþingis, Fjármálaeftirlitsins og lífeyrissjóðanna. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR um traust til helstu stofnana samfélagsins.

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 79,5% bera mikið traust til Lögreglunnar, 70,2% til Háskóla Íslands, 58,0% til Háskólans í Reykjavík, 51,3% til Ríkisútvarpsins og 41,8% til Landsvirkjunar.

Spurt var: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til eftirfarandi aðila.

Svarmöguleikar voru: Mjög lítið traust, frekar lítið traust, hvorki mikið né lítið traust, frekar mikið traust, mjög mikið traust og veit ekki/vil ekki svara.

Niðurstöður sýna fjölda þeirra sem svöruðu annað hvort mjög/frekar mikið eða lítið traust. Samtals tóku 98,2% afstöðu til spurningarinnar. Hlutfallstölur eru reiknaðar af heildarfjölda þeirra sem tóku afstöðu til einhverrar stofnunar.

Traust til háskólanna jókst nokkuð frá október 2013. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 70,2% bera mikið traust til Háskóla Íslands, borið saman við 61,3% í október 2013 og 58,0% sögðust bera mikið traust til Háskólans í Reykjavík nú, borið saman við 48,6% í október 2013.

Traust til Landsvirkjunar, stéttarfélaganna, Seðlabankans, Evrópusambandsins,VR, Fjármálaeftirlitsins og bankakerfisins hefur ekki verið meira frá því að mælingar hófust.

Á meðan traust til flestra stofnana jókst frá síðustu mælingu dróst traust til ríkisstjórnarinnar og Alþingis saman. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 17,4% bera mikið traust til ríkisstjórnarinnar, borið saman við 23,0% í október 2013 og 12,8% sögðust bera mikið traust til Alþingis nú, borið saman við 16,4% í október 2013.

mynd/mmr



Fleiri fréttir

Sjá meira


×