Enski boltinn

Nani fer til Sporting á láni í skiptum fyrir Rojo

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nani hefur verið hjá Manchester United í sjö ár.
Nani hefur verið hjá Manchester United í sjö ár. vísir/getty
Forseti portúgalska úrvalsdeildarliðsins Sporting Lissabon hefur opinberað að argentínski varnarmaðurinn Marcos Rojo er á leið til Manchester United.

Rojo kostar United 20 milljónir punda og þá fer vængmaðurinn Nani til portúgalska liðsins á láni út leiktíðina. Nani þekkir vel til hjá Sporting, en hann spilaði með liðinu í tvö ár áður en hann var keyptur til Manchester United.

Nani hefur verið í herbúðum Manchester United í sjö ár og unnið ensku úrvalsdeildina fjórum sinnum með liðinu. Hann er elskaður af sumum stuðningsmönnum en hataður af öðrum.

Louis van Gaal hefur verið á eftir Rojo í nokkrar vikur, en hann var settur í skammarkrókinn hjá Sporting á dögunum fyrir að krefjast sölu til United. Rojo var í hópi Argentínu á HM þar sem liðið komst í úrslitaleikinn.

Manchester United hefur ekkert gefið út um félagaskiptin, en JamieJackson, blaðamaður Guardian, segist á Twitter hafa rætt við United-menn þegar fréttirnar fóru að berast og þar á bæ vilja menn ekkert staðfesta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×