Innlent

Útreikningar Vilhjálms sagðir meiningarlausir

Baldvin Þormóðsson skrifar
Vilhjálmur Bjarnason, til vinstri og Þórólfur Matthíasson, til hægri.
Vilhjálmur Bjarnason, til vinstri og Þórólfur Matthíasson, til hægri. vísir/auðunn/vilhjálmur bjarnason
Þetta er ekki einu sinni eins og að bera saman epli og appelsínur, þetta er meira eins og að bera saman mangó og lime. Þetta er meiningarlaust, segir Þórólfur Matthíasson, hagfræðiprófessor í samtali við Vísi um útreikninga Vilhjálms Bjarnasonar, formann Hagsmunasamtaka heimilanna.

Eins og Vísir greindi frá fyrr í dag þá birti Vilhjálmur nýverið tölur þar sem hann fullyrðir að íslensk fjölskylda sem tekur 26 milljón króna húsnæðislán sé krafin um 466 milljón króna endurgreiðslu. Norsk fjölskylda sem taki jafn hátt húsnæðislán er hinsvegar krafin um rétt rúmlega 51 milljón króna endurgreiðslu.

Munurinn þarna er sá að lánin í Noregi eru með eitt til þrjú prósent vexti, á meðan við á Íslandi erum að tala um fjögur til fimm prósent vexti og verðbólgu ofan á. Þetta hefur ekkert með lánaformið sjálft að gera, þótt að verðtryggð lán yrðu gerð ólögleg yrðu samt háir raunvextir, segir Þórólfur.

Lánakostnaður íslenskra fjölskylda er kannski hærri en lánakostnaður fjölskyldna í Noregi, en íbúð í miðbæ Osló er líka mun dýrari en sambærilegt húsnæði í Reykjavík. Það þarf að horfa á allt dæmið, raunvextir eru hærri á Íslandi en á móti kemur hærri framfærslukostnaður og hærra húsnæðisverð í Noregi,

Það er ekki hægt að horfa bara á einn partinn og halda að maður sé kominn með alla söguna. Þú þarft að lesa alla bókina.“ segir Þórólfur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×