Innlent

Verkfalli prófessora frestað: „Mikið fagnaðarefni fyrir nemendur okkar“

Bjarki Ármannsson skrifar
Nemendur við HÍ geta tekið öll sín próf í desember.
Nemendur við HÍ geta tekið öll sín próf í desember. Vísir/GVA
Boðuðu verkfalli Félags prófessora við ríkisháskóla, sem standa átti dagana 1. - 15. desember, hefur verið frestað. Gengið var frá kjarasamningi við samninganefnd ríkisins nú í kvöld.

Þetta þýðir að jólapróf við ríkisháskólana fjóra; Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskólann á Hólum, fara fram með eðlilegum hætti.

„Við erum búin að skrifa undir og fórum í vöfflurnar rétt í þessu,“ segir Rúnar Vilhjálmsson, formaður Félags prófessora við ríkisháskóla. Eins og þekkt er, eru alltaf bakaðar vöfflur hjá ríkissáttasemjara þegar samningar takast.

„Fyrirspurnum áhyggjufullra nemenda var farið að rigna yfir okkur og hver dagur er dýr þegar komið er svona nálægt prófum. Þetta er mikið fagnaðarefni, sérstaklega fyrir nemendur okkar.“

Rúnar Vilhjálmsson, formaður Félags prófessora við ríkisháskóla.Vísir/GVA
Verkfallsboðun nauðsynleg

Á næstu dögum verður efnt til atkvæðagreiðslu um samninginn meðal félagsmanna. Hann verður fyrst kynntur félagsmönnum í tölvupósti og svo þarf að fara fram rafræn atkvæðagreiðsla sem stendur yfir nógu lengi til að sem flestir geti tekið þátt. Ekki kemur til verkfalls nema samningurinn verði felldur í þessari atkvæðagreiðslu.

„Ég tel það ólíklegt miðað við hvað við höfum haft góðan stuðning félagsmanna,“ segir Rúnar. „Við metum það svo núna að lengra hefði ekki verið komist.“

Rúnar segir boðun verkfalls hafa verið óumflýjanlega til þess að samningar tækjust.

„Ég verð að segja eins og er, að menn fóru ekki að vinna að samningi fyrr en búið var að samþykkja boðun verkfalls,“ segir hann. „Það var í þófi vikum og mánuðum saman fram að því.“

Rúnar segir nýja samninginn ásættanlegan, ekki síst vegna þess að hann nær til skamms tíma. Hann gildir út febrúar og mun vinna því hefjast strax eftir áramót að samningi sem verður lengur í gildi.


Tengdar fréttir

Prófessorar samþykktu verkfallsaðgerðir

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem kusu í atkvæðagreiðslu Félags prófessora við ríkisháskóla um boðun verkfalls samþykktu verkfallsaðgerðir.

Verkfallið bitnar á öllum nemendum

Formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir að afstýra verði strax boðuðu verkfalli prófessora við ríkisháskóla. Það sé hagur nemenda að kjör prófessora standist samanburð við kjör í öðrum háskólum. Menn hafi áhyggjur af stöðu skólanna.

„Óboðleg staða fyrir nemendur“

Ísak Rúnarsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, segir mikla óvissu ríkja á meðal nemenda vegna boðaðs verkfalls háskólaprófessora.

Jólapróf háskólanemenda í tvísýnu vegna kjarabaráttu

Félag prófessora við ríkisháskóla undirbýr atkvæðagreiðslu til þess að taka ákvörðun um hvort boðað verði til verkfalls í byrjun desember. Þetta gæti þýtt að um helmingi jólaprófa við ríkisháskóla verði frestað.

Helmingur prófa fellur niður

Prófessor við Háskóla Íslands segir að próf í hans námskeiði muni fara fram. Formaður Félags prófessora segir reglurnar skýrar og ekki einstaka kennara að túlka þær og viðmið þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×