Innlent

Félagsráðgjafar vísi fólki í ósamþykkt húsnæði

Hjörtur Hjartarson skrifar
Fréttir af fólki í húsnæðisvanda vegna erfiðs leigumarkaðs eru ekki nýjar af nálinni. Sjónvarpsþátturinn Brestir beindi sjónum sínum að ákveðnu afsprengi þessa vandamáls í gærkvöld þegar hann heimsótti leigjendur sem búa í iðnaðarhúsnæði. Herbergin eru ekki samþykkt sem íbúðarhúsnæði og er aðbúnaður þar oft á tíðum skelfilegur. Leigjendur sem rætt var við í þættinum segja óþrifnaðinn algjöran, pöddur skríðandi um gólf og öllu lauslegu stolið. „Það er hinsvegar betra að búa hér en hvergi,“ sagði einn leigjandinn.

Félagsráðgjafar í Reykjavík og Kópavogi hafa í fjölmörgum tilfellum vísað skjólstæðingum í húsnæðisvanda til leigumiðlunar sem býður upp á ósamþykkt iðnaðarhúsnæði. Þá eru dæmi þess að sveitarfélögin hafi milliðalaust greitt slíkum leigusölum tryggingu fyrir leigutakann.

Eftirgrennslan fréttastofu í dag leiddi í ljós að félagsráðgjafar, bæði í Kópavogi og í Reykjavík vísa oft á tíðum skjólstæðingum sínum í þessar íbúðir sem eru í eigu Stefáns Kjærnested og leigðar út í gegnum vefinn leiguherbergi.is.

„Það er auðvitað bara neyðin sem hefur ýtt okkur þangað. En ég sá þáttinn í gær og mér fannst þetta ótækt,“ segir Sigtryggur Jónsson, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðva Miðborgar og Hlíða.

Bæði í Kópavogi og í Reykjavík hefur verið gengið skrefinu lengra og hefur trygging, sem samsvarar tveggja mánaða leigu, verið greidd beint til leigusala og má því segja að bæjarfélögin eigi í beinum viðskiptum við umræddan leigusala án þess að fyrirliggi þinglýstur leigusamningur.

„Núna í seinni tíð þá höfum við, ef fólk getur náð sér í húsnæði á leigu, gengist inn á að samþykkja slíka hluti.“

Heldurðu að félagsráðgjafar muni hugsa sig tvisvar um áður en þeir fara að vísa aftur í þessa leigumiðlun?

„Ég get ekki sagt um það. Eins og ég sagði áðan þá er húsnæði alltaf húsnæði og það er betra heldur en að vera á götunni,“ segir Sigtryggur.


Tengdar fréttir

Stefán Kjærnested: „Ég braut ekki lög“

Vísir fer yfir sögu Stefáns Kjærnested sem var til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Brestir í gær. Stefán hefur áður verið til umfjöllunnar í fjölmiðlum í tengslum við slæman aðbúnað þeirra sem leigja hjá honum herbergi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×