Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hafði heyrt fréttir af væntanlegri afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í fjölmiðlum. Hann eins og fjölmargir þingmenn sem fréttastofa hefur rætt við í dag kom hins vegar af fjöllum.
„Ég vona innilega að hún segi af sér áður en við neyðumst til að leggja fram vantraust. Það væri mikið gleðiefni ef það væri hægt að klára þetta núna. Hún ætti að vera löngu búin að þessu,“ segir Helgi Hrafn í samtali við Vísi.
Fréttamenn Vísis urðu vitni að því þegar Hanna Birna mætti í innanríkisráðuneytið um klukkan 14:15 í dag. Fór hún inn bakdyramegin og gaf ekki kost á viðtali við fjölmiðla.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hafði sömuleiðis aðeins heyrt af málinu í fjölmiðlum. Hann vildi ekki tjá sig um fyrirhugaða afsögn Hönnu Birnu að svo stöddu.
Innlent