Körfubolti

Treyjurnar hans Collins seljast rosalega vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Collins.
Jason Collins. Vísir/AP
Það vakti gríðarlega athygli þegar Jason Collins samdi við Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta á dögunum en hann varð þar með fyrsti leikmaðurinn sem spilar í einum af fjórum stærstu atvinnumannadeildunum í Bandaríkjunum eftir að hafa komið út úr skápnum.

Jason Collins ætlar að spila í treyju númer 98 hjá Brooklyn Nets og þrátt fyrir að vera í litlu hlutverki og hafa ekki náð að skora eitt stig í fyrstu tveimur leikjum sínum með Nets þá seljast treyjurnar hans eins og heitar lummur.

AP-fréttastofan segir frá því að treyjur og bolir merktir Jason Collins séu söluhæsti fatnaðurinn hjá NBAStore.com og þar skiptir engu máli hvort sé um að ræða, heimavallar eða útivallarbúningurinn, bolur merktur honum eða sérstök kvenmannsútgáfa af útivallarbúningnum.

Allar þessar treyjur hafa selst betur í sínum flokki heldur en treyjur súperstjarna deildarinnar eins og LeBron James, Kobe Bryant eða Kevin Durant.

Jason Collins þurfti reyndar að spila fyrsta leikinn í treyju númer 46 af því að hin treyjan var ekki tilbúinn. Hann valdi númerið 98 til heiðurs Matthew Shepard sem var myrtur árið 1998 í hatursglæpi tengdum kynhneigð hans.

Vísir/AP
Vísir/AP
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×