Skoðun

Glæpasamtök helstu stuðningsmenn fíkniefnabannsins

Ingvar Smári Birgisson skrifar
Síðustu ár hefur verið mikil umræða um hvernig best sé að koma í veg fyrir að skipulögð erlend glæpastarfsemi nái rótum hér á landi. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram í þeirri umræðu, en Heimdellingar hafa lagt fram þá tillögu, að afglæpavæðing fíkniefna sé skilvirkasta aðferðin til að grafa undan skipulagðri glæpastarfsemi.

Með afglæpavæðingu fíkniefna væri fjárhagslegum grundvelli kippt undan skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi. Áætlað andvirði fíkniefna sem seljast árlega hér á landi er talið vera 30 til 90 milljarðar. Stærsta og veigamesta orsök þess að erlend skipulögð glæpastarfsemi leitar til landsins er sú að mikla peninga er að hafa við fíkniefnasölu. Rétt eins og áfengisbannið skapaði mafíuna Vestanhafs, þá skapar fíkniefnabannið grundvöll fyrir skipulagða glæpastarfsemi hérlendis.

Þegar engin lög gilda, þá ríkir stjórnleysi. Glæpasamtök nota ofbeldi til að leysa allar sínar deilur. Bæði heyja glæpasamtök stríð um yfirráðasvæði, þar sem barist er um réttinn til sölu fíkniefna, og viðskiptavinir eru beittir grófu ofbeldi ef þeir geta ekki borgað skuldir sínar, enda er ekki möguleiki að beita hefðbundnum innheimtuúrræðum. Nýlega hafa komið hryllileg mál á borð lögreglunnar þar sem fíkniefnasjúklingar hafa verið beittir grófu ofbeldi vegna fíkniefnaskulda.

Á meðan glæpasamtök sjá um framleiðslu, flutning og sölu fíkniefna þá er ekkert eftirlit með gæðum efnanna né hag neytenda. Engar innihaldsupplýsingar fylgja efnunum, sem hefur leitt til dauða margra ungmenna, þar sem of stórir skammtar hafa verið teknir vegna skorts á upplýsingum um innihald efnanna. Þessi dauðsföll eru bein afleiðing fíkniefnabannsins.

Þrátt fyrir að refsingar hafi verið þyngdar hefur neysla á fíkniefnum aukist. Enn fremur hafa samfélagsleg vandamál tengd fíkniefnaneyslu aukist, t.a.m. glæpir og heilbrigðisvandamál. Með afnámi fíkniefnabanns tökum við sterka afstöðu gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Auðveldara verður að hafa eftirlit með framleiðslu og neyslu fíkniefnanna, þannig væri hægt að bjarga mörgum mannslífum.

Ef markmið yfirvalda er að draga úr glæpum og heilbrigðisvandamálum, þá er ljóst að afnám fíkniefnabanns ber að skoða.




Skoðun

Sjá meira


×