Íslendingaliðin Viking, Sarpsborg 08 og Molde unnu öll sína leiki í sextán liða úrslitum norsku bikarkeppninnar í kvöld en Vålerenga og Start eru úr leik.
Jón Daði Böðvarsson, Björn Daníel Sverrisson og Indriði Sigurðsson skoruðu allir fyrir Viking í 4-1 heimasigri á Sogndal í kvöld en sex íslenskir leikmenn voru í byrjunarliðum liðanna, Jón Daði, Björn Daníel, Indriði, Steinþór Freyr Þorsteinsson og Sverrir Ingi Ingason hjá Viking og Hjörtur Logi Valgarðsson hjá Sogndal.
Björn Daníel kom Viking í 2-0 á 58. mínútu og Jón Daði skoraði þriðja mark liðsins á 77. mínútu eftir að Sogndal minnkaði muninn. Indriði skoraði fjórða og síðasta markið á lokamínútunni.
Matthías Vilhjálmsson skoraði fyrir Start en það dugði ekki til í 2-3 tapi í Íslendingaslag á móti Sarpsborg 08. Guðmundur Þórarinsson var í byrjunarliði Sarpsborg 08 og Þórarinn Ingi Valdimarsson kom inná sem varamaður á 16. mínútu. Matthías og Guðmundur Kristjánsson voru í byrjunarliði Start.
Viðar Örn Kjartansson og félagar í Vålerenga eru úr leik eftir 2-3 tap á móti Odd en sigurmark Odd kom úr vítaspyrnu á 90. mínútu. Odd komst í 2-0 en Vålerenga jafnaði metin í 2-2 þegar tólf mínútur voru eftir. Viðar Örn náði ekki að skora fyrir Vålerenga í kvöld.
Björn Bergmann Sigurðarson var ekki með Molde sem vann 4-0 heimasigur á Mjöndalen.
