Ósáttur við að vera kallaður til sem vitni

Tæknilegir örðugleikar voru í upphafi þar sem ekki náðist að hringa í fyrsta vitni dagsins, Svöfu Grönfeldt, sem er stödd í Suður-Kóreu. Dagskráin riðlaðist því strax í upphafi og var Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi forstöðumaður verðbréfamiðlunar, kallaður inn í staðinn sem fyrsta vitni dagsins.
Steinþór hlaut 9 mánaða dóm, þar af 6 skilorðsbundna, í Imon-málinu fyrr á þessu ári. Þeim dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og var Steinþór ósáttur við að vera kallaður til sem vitni.
„Nú er ég í þeirri fáheyrðu stöðu að vera saklaus dæmdur í máli sem var klofið frá þessu máli. Skil ég rétt að það sé verið að rétta aftur í því máli? Mér skildist á fjölmiðlum í gær að það væri verið að spyrja um það mál. Ég get auðvitað ekki tjáð mig um mál sem er búið að áfrýja til Hæstaréttar og er enn fyrir dómstólum. Er það ekki ólöglegt?“ sagði Steinþór áður en nokkrar spurningar höfðu verið bornar fram.
„Þá er þessu bara lokið,“ svaraði dómsformaður, Ragnheiður Harðardóttir, og fór Steinþór úr dómsal án þess að bera vitni. Var því dagskráin allt í einu komin á undan áætlun og var mikil gleði með það í dómsal.
Svo náðist í Svöfu Grönfeldt og var hún spurð út í starf bankaráðs sem hún sat í á árunum 2007-2008. Greindi hún almennt frá störfum ráðsins auk þess sem hún var spurð út í hvort að ráðið hafi eitthvað sérstaklega rætt einstaka þætti í starfsemi eigin fjárfestinga bankans vegna kaupa á bréfum í bankanum sjálfum. Sagði hún svo ekki hafa verið; bankaráð hafi rætt stöðu bankans í heild en ekki einstaka viðskipti og farið yfir mánaðarlegt uppgjör og ársfjórðungsuppgjör bankans. Undir þetta tók Kjartan Gunnarsson sem einnig átti sæti í bankaráði á ákærutímabilinu og bar vitni í morgun.
Bæði Kjartan og Svafa báru að einstaka lánveitingar hefðu ekki verið ræddar innan bankaráðs nema þá lán sem voru til tengdra aðila.
Tengdar fréttir

„Átti aldrei von á því að Davíð Oddsson myndi sprengja Glitni í loft upp“
Sigurjón Árnason neitaði að hafa þekkt eitthvað til viðskipta með eigin bréf Landsbankans fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

„Ef ég ætti svona mikinn pening myndi ég bara klára Kauphöllina“
Skýrslutaka yfir Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Reikna með níu daga réttarhöldum yfir Landsbankamönnum
Aðalmeðferð í einu stærsta máli sem Sérstakur saksóknari hefur haft til rannsóknar í kjölfar efnahagshrunsins hefst í dag.

„Fyrsta mál þessarar tegundar sem rekið er fyrir dómi“
Ákæruvaldið heldur því fram að viðskipti fjögurra fyrrverandi starfsmanna Landsbankans með eigin bréf bankans fyrir hrun hafi gefið röng og misvísandi skilaboð með það fyrir augum að halda hlutabréfaverði í Landsbankanum uppi og borið einkenni blekkinga og sýndarmennsku. Sérstakur saksóknari telur málið mikilvægt fordæmi varðandi markaðsmisnotkun.

Kom ekki nálægt rannsókn á markaðsmisnotkun Landsbankans
Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi starfsmaður Sérstaks saksóknara, bar í dag vitni í markaðsmisnotkunarmáli sem höfðað er gegn fjórum fyrrum stjórnendum og starfsmönnum Landsbankans.