Geir Gunnlaugsson, landlæknir, segir að allar alþjóðlegar rannsóknir bendi til þess að afnám einkasölu ríkisins á áfengi muni leiða til aukinnar heildarneyslu.
Enn fremur sýni rannsóknir að samhliða aukinni áfengisneyslu aukist samfélagslegur kostnaður vegna áfengistengdra vandamála. Þetta segir Geir í pistli á vefsíðu embættis síns vegna frumvarps um afnám einkasölu á áfengi, sem liggur fyrir þinginu.
Geir segir að sterkur vísindalegur grunnur sé fyrir virkum aðgerðum til að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyslu. Stýring á aðgengi að áfengi sé árangursrík leið til að takmarka áfengisneyslu og um leið mjög virk forvarnaraðgerð.
„Rannsóknir á takmörkun aðgengis sýna að takmörkun afgreiðslutíma, fjölda söludaga og sölustaða helst í hendur við minni neyslu og minna tjón af völdum hennar,“ segir Geir. Þetta komi meðal annars fram í Aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Evrópu til að draga úr skaðlegri notkun áfengis 2012-2020 og Heilsa 2020 þar sem grunnur er lagður að forvarnastarfi stofnunarinnar til ársins 2020.
Innlent